137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var náttúrlega ekkert svar. Ég var ekki að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að því hvernig menn ætluðu að greiða atkvæði þegar kæmi að því að afgreiða tillöguna. Ég var fyrst og fremst að spyrja að því, vegna þess að það fer ekki fram hjá neinum sem les þessa tillögu að hér er um afskaplega mikla suðu að ræða milli stjórnarflokkanna sem eru í grundvallaratriðum ósammála um þetta mál, af hverju það komi ekkert fram um það í þessari tillögu hverju við sækjumst eftir, hvað það er á vettvangi Evrópusambandsins sem við teljum henta okkur. Verið er að leggja til að við förum af stað varðandi eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar og ræðum við önnur lönd.

Það kom fram hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem vék að því í ræðu sinni, ekkert af því kemur fram í þessu plaggi. Hér eru sex punktar tilgreindir sem einhverjir fyrirvarar, einn þeirra gæti hugsanlega verið þess eðlis að hann sé jákvæður gagnvart Evrópusambandinu. Allir aðrir eru varnarpunktar og fyrir mann sem er jafnáhugasamur um Evrópusambandið og hæstv. ráðherra er kemur þetta afskaplega mikið á óvart.