137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki túlkað orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar öðruvísi en með jákvæðum hætti þannig að hann ætli að veita utanríkismálanefnd allan þann tíma sem hann telur og nefndarmenn telja að við þurfum að fá í málið og nýta í málið til að það verði sem best úr garði gert.

En það er mitt mat að við verðum að fara fyrst þá leið sem við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn lögðum fram í okkar tillögu til þess að geta farið af fullum krafti í málið þegar þar að kemur þannig að undirbúningurinn verði slíkur að við getum verið bæði stolt af og hann nýst okkur sem skyldi í samningaviðræðunum og þjóðin viti út á hvað málið gangi. Þrátt fyrir allar nefndirnar vita menn ekki nákvæmlega út á hvað þetta allt gengur, hver kostnaðurinn sé og svo framvegis.

Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni um að ríkisstjórnin standi og falli ekki með þessu máli. Það tók þetta langan tíma að koma stjórnarsáttmálanum saman því menn þurftu að ná niðurstöðu í þessu máli. Þetta er líflína (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. Ef þetta plagg hefði ekki litið dagsins ljós þá værum við ekki með þessa ríkisstjórn.