137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið endurtekið alloft í þessari umræðu hér í dag að málið sé á einhvern hátt vanbúið og að ótímabært sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég kem hér upp til þess eins að halda því til haga að líklega hefur ekkert ríki í sögunni verið jafn vel undirbúið undir aðildarumsókn að ESB og Ísland er nú.

Ástæðan er sú að öfugt við öll önnur ríki sem hafa sótt um aðild að ESB þá er Ísland í þeirri einstöku stöðu að hafa meira en áratugs reynslu af mjög nánu samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn og í gegnum þann samning höfum við verið þátttakendur í innri markaðnum allt frá 1994. Við höfum lögleitt á Íslandi 3.000 eða 4.000 gjörðir á öllum sviðum fjórfrelsisins og unnið náið með Evrópusambandinu allt frá sérfræðinganefndum til pólitísks samráðs. Íslenskt viðskiptalíf, íslenskt samfélag og íslenska stjórnkerfið hefur þess vegna fengið besta mögulegan undirbúning fyrir það skref að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þessu til viðbótar hafa allir stjórnmálaflokkar haft þetta mál til umræðu í langan tíma og ýmsar nefndir og rannsóknastofnanir hafa fjallað ítarlega um málið undanfarin ár. Mér er því stórlega til efs að nokkurt ríki sem sótt hefur um aðild að ESB hafi notið viðlíka reynslu þegar lagt er af stað í aðildarviðræður.