137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Þess vegna spyr ég sjálfa mig þegar ég les plaggið frá ríkisstjórninni, allri ríkisstjórninni, líka ráðherrum Vinstri grænna, ráðherrum Samfylkingarinnar: Hafa þau ekki lesið allar þessar skýrslu frá flokkunum sem hv. þingmaður benti á? Það er eins og þeir sem komu með plaggið sem við erum að ræða um hér í dag, þ.e. að menn hafi bara ekki kynnt sér nein gögn, ekkert, til þess að segja af hverju rétt sé að fara í þessa vegferð. Ég veit það fyrir mína parta. Ég er sannfærð um að við eigum að fara í aðildarviðræður. En ekki með þessum undirbúningi. Það hefur verið ákall um það í vetur að við eigum að upplýsa þjóðina í öllum mikilvægum málum um hvernig ferlið er. Ef það er ekki í þessu máli þá er það í engu máli. Við eigum að segja þjóðinni hvernig við ætlum að gera þetta, hvaða stjórnarskrárákvæði við verðum að breyta, hvað það kosti, hvernig við ætlum að tryggja aðgengi frjálsra félagasamtaka og hreyfinga sem hafa mismunandi skoðanir í málinu. Allt þetta liggur ekki fyrir. Það er bara eitthvert „me-he“ og blaður — fínt — verið að reyna að segja út á hvað þetta gangi varðandi ákveðna hagsmuni en ekki miklu meira. Eina sem þetta snýst um að þeirra mati er að þjóðin fái að hafna eða samþykkja samninginn. Það eru allir sammála um það. En það er ekki ein setning eða leiðarljós um það af hverju rétt sé að fara þarna inn.