137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Mér finnst eiginlega sorglegt að upplifa það að nýir þingmenn sem eru kjörnir hingað inn á þing átti sig ekki á því að þeir eru ekki kosnir hingað til þess að vera sagnfræðingar eða stunda sagnfræði. Þeir eru kosnir hingað til þess að taka ákvarðanir til þess að koma okkar þjóð áfram og út úr þeim erfiðleikum sem við erum í. (Gripið fram í.) Aðrir eru betur til þess fallnir að stunda sagnfræði. En við erum ekki hrædd við fortíðina. Við skulum taka sérstaka umræðu um hana, hv. þingmaður.

Það sem mér finnst til vansa er sú vanvirðing sem tillaga ríkisstjórnarflokkanna sýnir þinginu. Þingið er bara upp á punt. Við fáum enga aðkomu að þessari faglegu viðræðunefnd. Við eigum bara að skipa einhverja Evrópunefnd sem er stundum í samráði og í samvinnu við þessa samninganefnd. Þingið á að koma miklu ríkara að öllu ferlinu og ég trúi ekki öðru en að nýr þingmaður geti tekið undir mér. Þingið á að koma miklu ákveðnar að þessu máli öllu. Ég tel að það verði málinu til farsældar sérstaklega þegar horft er upp á það hvernig ríkisstjórnin heldur á þessu máli öllu. (Gripið fram í.) Það er til vansa.