137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og tillaga þessi ber með sér hafa stjórnarflokkarnir orðið ásáttir um að leggja það í hendur Alþingis hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu þannig að þjóðin geti síðan tekið afstöðu til þess ef til samningsniðurstöðu kemur og hafnað niðurstöðunni eða samþykkt hana. Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem tengist þessu máli verður flutt hér innan skamms þannig að lagaramminn liggi einnig klár fyrir með hvaða hætti kosið verði um niðurstöður í stórmáli af þessu tagi en um það hefur sem betur fer verið samstaða að að sjálfsögðu eigi þjóðin að eiga síðasta orðið og ákveða sín örlög í þessu stóra máli.

Ég verð þar af leiðandi að segja að ég skil ekki alveg ræðuhöld um að Alþingi Íslendinga sé ekki fullur sómi sýndur með þessari málsmeðferð. Ég tel að það sé þvert á móti því hér er valin sú leið að láta þingræðið og þingviljann ráða og veita leiðsögn í þessu mikilvæga máli. Ef svo reynist að ríkur þingvilji standi til þess að fara í þessar viðræður og sömuleiðis að fyrir liggi vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar að rétt sé að láta á þetta reyna þó svo að gjarnan í sömu skoðanakönnunum reynist helmingur eða meiri hluti jafnvel þjóðarinnar sem afstöðu tekur andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þá er væntanlega bæði lýðræðislega og þingræðislega rétt að þetta sé gert, að meiri hlutinn ráði þar ferðinni. Menn geta spurt hvort það sé ekki mótsagnakennt að talsverður meiri hluti í könnunum gefi upp þá afstöðu að það beri að sækja um en á sama tíma telji jafnvel meiri hluti ekki hagstætt að ganga í Evrópusambandið. Hverju sætir þá þessi munur? Jú, væntanlega er hann tvíþættur, eins og ég les í það mál. Annars vegar trúa ýmsir því að umtalsvert samningssvigrúm sé fyrir hendi og að möguleikar séu á því að Ísland fái umtalsverða sérmeðferð eða sérúrlausn sinna mála. Hins vegar er það sjónarmið líka allútbreitt að það eigi einfaldlega að útkljá þetta mál og það telja bæði þeir sem eru því fylgjandi og einhverjir þeirra sem eru því andvígir að við göngum í Evrópusambandið að eftir sem áður þurfi að fá botn í málið og útkljá það. Ég held að það sjónarmið hafi færst í vöxt á undanförnum árum.

Nú hefur verið dreift hér annarri tillögu um að hefja undirbúning að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og tillagan sem ég er með í höndum — þangað til athygli mín var vakin á því að hún hefði verið prentuð upp og lagfærð — hljóðaði einmitt upp á þetta svona, með leyfi forseta:

„Tillaga til þingsályktunar um undirbúning umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.“

En á hinu uppprentaða skjali stendur, með leyfi forseta:

„... um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.“

Gott og vel. Upp á þetta skrifa allir með tölu 25 þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins. Það virðist þar af leiðandi vera þannig að það megi ætla að það sé mjög ríkulegur þingmeirihluti fyrir því að fara í slíkar viðræður. (Gripið fram í.) Ágreiningurinn er þá væntanlega fyrst og fremst um það hvernig beri að undirbúa þá umsókn og hvernig eigi að haga því ferli og hvaða tíma menn ætli sér í það og hvað eigi að semja langa greinargerð og annað í þeim dúr.

Að sjálfsögðu skiptir undirbúningurinn máli. Að sjálfsögðu þarf að vanda hvernig staðið verður að þessu, hvernig haldið verður á samningaviðræðum af okkar hálfu og það er einmitt ætlunin að utanríkismálanefnd leggist yfir það og henni er ætlað ríkulegt hlutverk í greinargerð stjórnartillögunnar og henni er líka ætlað hlutverk og/eða sérstakri Evrópunefnd Alþingis í framhaldinu, verði farið í viðræðurnar. Nú veit ég ekki betur en að utanríkismálanefnd sé þannig skipuð að í henni sitji að minnsta kosti tveir og þar af leiðandi báðir formenn stjórnarandstöðuflokkanna því að sá þriðji er ekki með formann þannig að þeir eru þá í prýðilegri aðstöðu, forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna tveggja sem hér flytja svo saman aðra tillögu, um að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og beita sér í utanríkismálanefnd. Undirbúningurinn skiptir að sjálfsögðu máli, hvernig farið verði í viðræðurnar, hvernig samráði við þingið verði háttað og hver aðkoma þess verði í gegnum eftir atvikum sjálfstæða Evrópunefnd eða utanríkismálanefnd og það stendur ekkert annað til og hefur væntanlega aldrei staðið neitt annað til en það að tryggja Alþingi öllu og helstu aðilum úti í þjóðfélaginu aðkomu að þessu máli enda væri annað auðvitað fráleitt.

Það hvernig menn vilja síðan búa um viðræðurnar í skilningnum hvaða fyrirvara, samningsmarkið eða eftir atvikum skilyrði menn vilja setja ef þeir kjósa að kalla það svo þá er að sjálfsögðu sjálfsagt að ræða það. En þegar til kastanna kemur er ákvörðunin einföld og tillögugrein um þetta efni — það hefur ekkert upp á sig að hafa hana meira en tvær línur: Ætla menn að hefja aðildarviðræður eða ekki, já eða nei?

Mér virðist gæta þess misskilnings hér að menn samþykki greinargerðir með þingsályktunartillögum. Það er ekki gert. Það er tillögugreinin sem er borin upp til atkvæða. (Gripið fram í.) Greinargerðin er til útskýringa. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Það sem skiptir mestu máli ef framsóknarmenn draga nú andann bara rólega hérna fyrir okkur — það sem skiptir hins vegar (Gripið fram í.) miklu máli er nefndarálit viðkomandi nefndar. Ég veit ekki af hverju þessir þingmenn þessara tveggja flokka sem sameinast hafa í bræðralagi um þessa tillögu (Gripið fram í.) eru svona órólegir hér í salnum. Ég legg áherslu á það hins vegar að nefndarálit utanríkismálanefndar þarf að vera ítarlegt og vandað og þar, að mínu mati, eiga þá eftir atvikum að vera þeir fyrirvarar, samningsmarkmið og/eða skilyrði, ef einhverjir kjósa að kalla svo, sem menn vilja hamra á. Grundvallarhagsmunir Íslands sem væntanlega eru þar með þessir — efniviðurinn í, eftir atvikum þau samningsmarkmið eða fyrirvarar sem við viljum setja eru listaðir hér í tillögunni sem er til umræðu núna og ég held að ekki sé stór ágreiningur um þau, að minnsta kosti á yfirborðinu, að minnsta kosti ekki í aðdraganda málsins. Ágreiningurinn kynni miklu frekar að stofnast eða opinberast ef menn stæðu frammi fyrir því að svara spurningunni: Viljum við falla frá einhverjum af þessum markmiðum og ætlum samt að láta okkur hafa það að ganga í Evrópusambandið? Þá mun reyna á. En ég held að menn séu svolítið kannski að lesa fyrir fram í hluti sem reynir í eðli sínu ekki á fyrr en í lokaniðurstöðunni.

Það er heilmikið álitamál og ég væri ekki hreinskilinn ef ég viðurkenndi ekki að það sé mikið álitamál, burt séð frá því hvort menn eru á þessari stundu og þessum stað og þannig staddir í sinni tilveru að þeir telji að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki, þá er samt mikið álitamál og ætti að vera það fyrir báða aðila hvort nú sé rétti tíminn til að leggja í þennan leiðangur. Það er meðal annars vegna þess að menn þurfa auðvitað að meta hvort líkur séu á því að samningsniðurstaðan geti orðið sú sem þjóðin sættir sig við. Eru þær litlar, umtalsverðar eða miklar? Menn verða líka að hafa í huga að þetta er heilmikið verkefni ef í þetta er ráðist. Þetta mun leiða til heilmikils álags á okkar stjórnsýslu. Þetta mun binda mannafla. Þetta mun taka tíma og þetta mun kosta peninga. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að að sjálfsögðu er eitt af því sem utanríkismálanefnd og stjórnvöld þurfa að meta sameiginlega það hver yrði óumflýjanlegur lágmarkskostnaður af því að fara í slíkar viðræður. Það eiga menn að gera með opin augun og reyna að svara því til og meta það hvert umfangið á slíku verður.

Að sjálfsögðu eru aðstæðurnar erfiðar og við ekki vel stödd að ýmsu leyti til þess að bæta viðbótarvinnu og álagi á okkar fáliðaða Stjórnarráð, stjórnsýslu og eftir atvikum fleiri aðila sem hafa í mörg horn að líta og ekki liggja fjármunirnir á lausu beinlínis — svo það sé nú sagt héðan úr þessum ræðustóli og af þeim sem talar — til þess að bæta við (Gripið fram í.) miklum útgjöldum. Ég er nú bara, hv. þingmenn, að reifa þetta eins og þetta kemur mér fyrir sjónir, er það ekki bara heiðarlegt? Vilja menn ekki ræða um þessa hluti? Á ekki að tala um þetta eins og þetta er? Við þurfum að meta hversu mikinn kostnað óumflýjanlegt sé að leggja í það ef við förum í þetta á annað borð því að ef menn gera það verða þeir að gera það af alvöru. Annað væri ósæmilegt. Ef menn fara í viðræður eiga þær ekki að vera málamyndaviðræður eða í þykjustunni, eða hvað? Það er varla ætlunin.

Málið er hér lagt fram og þess vegna undrast ég líka svolítið tóna hér í ræðum um að þetta sé á einhvern hátt nálgun sem ekki sé frambærileg fyrir okkar hönd sem hér er lögð til í tillögu. Málið er lagt fram með mjög hliðstæðum hætti og gert var í Noregi þegar þeir voru að undirbúa að sækja um í annað sinn. (Gripið fram í.) Það er gert með almennum fyrirvara eins og var reifaður í baklandinu þegar Noregur sótti um, brenndur af reynslunni að hafa einu sinni sótt um áður og fellt niðurstöðuna. Stjórnvöld gerðu það alveg ljóst að þau áskildu sér allan rétt í sambandi við niðurstöðuna að mæla með henni eða mæla ekki með henni nákvæmlega eins og gert er hér. Það er heiðarlegt og þá geta menn spurt: Talar Evrópusambandið við slíka aðila sem nálgast það þannig? Svarið er væntanlega já því að fyrir því eru fordæmi, frá Noregi, frá Tékklandi og víðar að menn hafa ekkert reynt að draga dul á það þó að þeir færu í viðræður við Evrópusambandið að málið væri umdeilt, að stuðningur við það heima fyrir væri ótryggur og það gæti brugðið til beggja vona. Eða hvað? Halda menn að það hafi ekki frést að þetta sé umdeilt mál og þjóðin sé klofin, hagsmunasamtök klofin og stjórnmálalífið klofið í afstöðu sinni til þessa máls rétt eins og í mörgum öðrum löndum? Jú, og auðvitað veit Evrópusambandið það og það væri beinlínis barnalegt að ætla að reyna að breiða yfir það að staðan sé eins og hún er.

Þar af leiðandi er málið einfaldlega lagt fram með hliðsjón af þessum aðstæðum eins og eðlilegt er þá. Þetta er stórt, þetta er afdrifaríkt og þetta er erfitt mál og þetta mun reyna á og það er mikilvægt að menn fari með málið og vandi sig í samræmi við það. Eina frambærilega málsmeðferðin er þá málefnaleg, uppbyggileg og lýðræðisleg nálgun og það að þingræðið og þingviljinn og síðan þjóðin afgreiði þetta mál á grundvelli vandaðrar umræðu og upplýsingar er að sjálfsögðu einboðið.

Ég tek þar af leiðandi líka undir það að eitt af því sem þarf að skoða er með hvaða hætti það verði undirbúið að kynna málið, að stuðla að umræðu um það. Er ekki sjálfgefið til dæmis að stjórnvöld styðji við bakið á þeim sem eru vel til þess fallnir að halda uppi málflutningi, til dæmis heildarsamtökum þeirra sem eru meðmæltir og eru andvígir aðild að Evrópusambandinu? Mitt svar er jú. Ég held til dæmis að það væri mjög æskilegt að slíkum aðilum yrði auðveldað að koma rökum sínum og gagnrökum á framfæri.

Ég vil svo segja fyrir mitt leyti að ég er ekki trúaður á að Íslendingar fái miklar undanþágur eða sérreglur í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Dæmt af reynslu annarra þjóða, til dæmis Noregs sem sótti um í annað sinn og allir vissu að Noregur yrði að ná mjög hagstæðum samningi ekki síst á sviði sjávarútvegs ef líkur ættu að vera á því að norska þjóðin skipti um skoðun og samþykkti — niðurstaðan, hver var hún? Tímabundin aðlögun í aðalatriðum og niðurstaðan var felld. Ég tel miklu meiri líkur en minni á því að samningsniðurstaða, verði farið í þennan leiðangur, verði ekki aðgengileg fyrir Ísland og að þjóðin muni hafna henni. En málið er þá þar með úr sögunni. Þar með er kominn botn í það og það er ekki hangandi lengur yfir okkur endalaust eins og þetta hefur í raun og veru verið.

Það sem ég sæi einna mest eftir fyrir utan þá almennu grundvallarhagsmuni sem hér eru reifaðir, forræði yfir vatns- og orkuauðlindum, fiskveiðiauðlindinni, landbúnaður og matvælaiðnaður, lýðræðisþátturinn í þessu máli og svo framvegis, það er samningsforsvar, samningssjálfstæði og forsvar Íslendinga sjálfra í sjávarútvegsmálum í alþjóðasamskiptum. Ég hef meiri áhyggjur af því ef Íslendingar missa úr sínum höndum það að gæta sjálfir sinna hagsmuna og semja sjálfir um sína hlutdeild, til dæmis í deilistofnum og flökkustofnum heldur en jafnvel öðrum þáttum sjávarútvegsmálanna og er þar þó ekki lítið undir þar sem er forræðið yfir fiskveiðistjórninni og annað í þeim dúr. Ef við skoðum það aftur í tímann hefur þetta samningsforræði reynst okkur aftur og aftur ómetanlegt og við þurfum áfram á því að halda því að um þessa hluti, okkar hlutdeild í norsk-íslenskri síld, kolmunna, makríl þegar þar að kemur, loðnu og öðru slíku verður aldrei samið í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum alltaf að vera á staðnum og gæta okkar hagsmuna og mig hryllir við þeirri framtíð að Íslendingar sæti þar aftarlega á bekkjum í Evrópusambandinu og ættu að bítast um sinn hlut í slíkum þáttum við 27 eða 30 aðrar Evrópusambandsþjóðir ef til þess kæmi, sem ég á ekki von á.

Að öðru leyti höfum við um nóg annað að hugsa, Íslendingar, þessa dagana. Ég vara við því að við látum þetta mál trufla okkur of mikið í glímunni við þá örlagahluti sem við erum með í höndunum núna, íslensk stjórnvöld, dag frá degi (Forseti hringir.) og (Gripið fram í.) ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Vandamál Íslands verða (Forseti hringir.) bara leyst á Íslandi.