137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara lesa tillöguna:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Við skulum ekki gera minna úr málinu en efni standa til. En eftir stendur að hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki spurningunni: Hver voru sinnaskiptin? Rétt fyrir kosningar sagði hæstv. ráðherra klárt að ekki verði farið í aðildarviðræður strax eftir kosningar eins og Samfylkingin vill. Tók hann það sérstaklega fram að flokksráð VG mundi ekki samþykkja slíka tillögu.

Síðan spurði ég hæstv. ráðherra, af því að mönnum er tíðrætt um það hér að það skipti máli að þingið komi að þessu og hér komi allir óbundnir að máli, og ég vil fá svar við því: Kemur það til greina, eru þingmenn Vinstri grænna og þar með talinn hæstv. fjármálaráðherra opnir fyrir því að greiða atkvæði tillögu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem hefur verið dreift í þinginu?