137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki breytt grundvallarstefnu sinni í Evrópumálum. Við erum flokkur sem er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. En við höfum gert þá málamiðlun að fallast á að þessi tillaga fari í hendur Alþingis og lyktir hennar ráðist þar.

Ég get auðvitað alveg eins spurt hv. þingmann á móti: Eru þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ekki tilbúnir til að styðja stjórnartillöguna? Tillögurnar eru í raun og veru mjög hliðstæðar eins og ég sé þær. (Gripið fram í.) Báðar ganga út á að undirbúa það. (Gripið fram í.) Ég má líka spyrja, ég ræð mínum ræðutíma og þú þínum, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Eðlilegasta nálgunin við þessar aðstæður væri auðvitað að leggja það til að viðkomandi þingmenn tækju tillögurnar, bæru þær saman og skoðuðu og reyndu að komast að niðurstöðu um hvort ekki væri hægt að bræða þær saman. Vegna þess að þrátt fyrir allt hafa þau merkilegu tíðindi gerst að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn flytja hér tillögu sem gengur nákvæmlega í sömu átt og stjórnartillagan, þeir nálgast málið aðeins öðruvísi og formúlera það aðeins öðruvísi, vilja standa aðeins öðruvísi að undirbúningnum og vilja hafa greinargerðina aðeins öðruvísi.

En varðandi svarið við spurningunni þá hef ég ekki hugsað mér að styðja þessa tillögu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, enda var hún ekki borin undir mig og (Forseti hringir.) hún er flutt á þeirra ábyrgð.