137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkuð hreinskipta ræðu þar sem hann segir alveg skýrt og klárt að hann efist um að við fáum nokkrar undanþágur varðandi okkar mikilvægustu hagsmuni sem tengjast sjávarútvegi og landbúnaði.

Mig langar til að spyrja hann að tvennu. Það er alveg ljóst að hann ætlar að segja nei við tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, segir hann já við þeirri tillögu sem liggur hér fyrir og við erum að ræða? Ég gef mér það að hann segi já við þeirri tillögu, að hann ætli ekki að segja nei eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er gott að fá þetta á hreint.

Mig langar líka til að spyrja hann hvort hann sjái fyrir sér að þingið fái þann tíma sem það þarf til að vinna úr þessum tillögum sem bestu lausn fyrir Ísland. Er hann reiðubúinn til að gefa eftir í þeim ófrávíkjanlegu tímamörkum sem ríkisstjórnin hefur gefið, þ.e. að þingið verði að vera búið að afgreiða þetta mál í júnímánuði? Sér hæstv. fjármálaráðherra fram á að þingið geti fengið meiri tíma ef svo ber undir?