137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi tillaga kemur hingað til efnislegrar afgreiðslu eftir umfjöllun í nefnd og að lokinni síðari umr. kemur afstaða manna í ljós. Þeim ber engin skylda til að standa neinum skil á því hvernig þeir ætla að greiða atkvæði fyrr en þegar þar að kemur.

Það er heldur hvimleiður plagsiður sem er tekinn upp og fjölmiðlar gjarnan tína upp að yfirheyra menn um það fyrir fram hvaða afstöðu þeir ætla að taka til máls, jafnvel áður en það er komið til umræðu á Alþingi. Er þá hin þinglega meðferð þess bara út í loftið? Eiga menn að ganga að slíkri vinnu fyrir fram niðurnegldir? Skiptir ekki máli rannsókn máls í nefnd og hvaða breytingartillögur kunna að verða gerðar o.s.frv.? (Gripið fram í.)

Ég hef iðulega sagt að það kemur engum við í sjálfu sér fyrr en þar að kemur hvernig atkvæði manna falla og mönnum ber engin skylda til að upplýsa það frekar en þeir sjálfir vilja. Ef afstaða þeirra er þegar klár og liggur fyrir (Gripið fram í.) gera þeir það ef þeim sýnist. Varðandi það þá er þetta stjórnartillaga, það er rétt. Stjórnarflokkarnir hafa gert samkomulag um að hún sé flutt og ætli að það sé ekki fullnægjsandi vegvísir fyrir hv. þingmenn um það hvernig ég er líklegur til (Forseti hringir.) að greiða atkvæði.