137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í aðdraganda síðustu kosninga sögðu forsvarsmenn vinstri grænna að þeir væru skýr valkostur í íslenskum stjórnmálum, vinstri grænir væru alfarið á móti því að gengið yrði í Evrópusambandið. En í 15 mínútna langri ræðu hjá formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varð ég ekki var við þennan skýra valkost.

Í raun og veru tókst formanni vinstri grænna á 15 mínútum að komast upp með það að segja ekki hvort hann styður þá stjórnartillögu sem hér liggur fyrir sem ríkisstjórn hans leggur fram. Ég spyr hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon: Styður hann aðildarviðræður að Evrópusambandinu eða ekki?

Mér er alveg fyrirmunað að skilja að flokkur sem er á móti því að Ísland fari í Evrópusambandið skuli styðja það að ganga til aðildarviðræðna. Mér er fyrirmunað að skilja það. Og það var alveg ótrúlegur málflutningur sem við urðum vitni að hér þar sem hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri eiginlega smámál og vonandi mundi þetta ekki trufla þau mikilvægu störf sem við værum í (Forseti hringir.) á sumarþingi. Það er með ólíkindum að fylgjast með þessari ríkisstjórn, hvernig hún (Forseti hringir.) talar út og suður í þessu máli.