137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega orðið ákveðið áhyggjuefni ef hv. þingmanni og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þykir árið 1988 ekki mjög langt undan þegar sá sem hér stendur var 9 ára gamall en þá hafði hæstv. ráðherra verið lengi í pólitík og nú er árið 2009.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það voru mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir einstaklinga, sem kusu Vinstri hreyfinguna – grænt framboð út á það að sá flokkur er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Hann var það.) Hann var það kannski, já, hann breyttist eitthvað eftir að fólk kaus því að nú er formaður VG ansi véfréttarlegur í ræðustól Alþingis, hann þorir ekki einu sinni að segja okkur þingmönnum hvernig hann ætlar að greiða atkvæði með þeirri stjórnartillögu sem hér um ræðir. Ég spyr hæstv. ráðherra enn og aftur og mér finnst það vægast sagt frekar aumingjalegt ef hæstv. ráðherra er ekki tilbúinn að svara okkur því hvort hann styðji (Forseti hringir.) eigin stjórnartillögu eða ekki. (Forseti hringir.) Við heimtum svör frá hæstv. ráðherra.