137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er merkileg umræða. Ég er ekki búinn að vera mjög lengi hér á þingi en ég er þó búinn að átta mig á því að þegar hæstv. fjármálaráðherra lendir í klípu er rökþrota eða getur ekki útskýrt það sem hann er að hugsa bregður hann fyrir sig hæðnistóni eða fer aftur til ársins 1988 og rifjar upp eitthvað gamalt. Það er flott leið til að komast hjá því að svara spurningum eða skýra stefnu sína.

Mig langar að spyrja: Mun ráðherrann styðja þessa tillögu eins og hún liggur fyrir núna? Er öll ríkisstjórnin á þessari tillögu? Eru allir ráðherrar flutningsmenn á tillögunni? Ég vil fá svar um hvort þar eru allir ráðherrar, ef hægt er að svara því. Þetta er ekki þannig mál að við getum boðið upp á að hér standi einn af aðalmönnum ríkisstjórnarinnar, einn af þeim sem ber hvað mestu ábyrgð á stjórn landsins, og tali í véfréttarstíl um hvað flokkur hans vill eða vill ekki.

Ég tek undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að kjósendur VG í Norðvesturkjördæmi, þaðan sem ég kem, (Forseti hringir.) kusu flokkinn m.a. vegna þess að hann hafði skýra stefnu (Forseti hringir.) sem hann hefur núna snúið frá.