137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er nei. Það er ekki fráhvarf frá þeirri stefnu að vera andvíg aðild að Evrópusambandinu, þar hefur engin breyting á orðið. Það er okkar mat að aðild að Evrópusambandinu sé ekki hagstæð og við höfum ekki trú á því að útkoman verði slík að það sé líklegt að hún verði aðgengileg fyrir þjóðina eða að það breyti afstöðu okkar til málsins. En að sjálfsögðu áskilja væntanlega allir sér rétt til þess að kíkja á niðurstöðuna ef í þessar viðræður verður farið eða hvað? Ætla menn að hafa afstöðu sína fyrir fram algjörlega óháða því hvað út úr málinu kemur? Það held ég ekki.

Ég tel ekki að það sé neitt brot á stefnu okkar þó að við höfum gert samkomulag um málsmeðferð sem felur í sér að setja það í hendur Alþingis hvort sækja eigi um og láta þingviljann ráða í þessum efnum. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að einhverjir af okkar þingmönnum munu ekki styðja þessa tillögu, það liggur fyrir opinberlega. (Gripið fram í.) Það er samstarfsflokki okkar kunnugt um (Gripið fram í.) eins og þegar liggur fyrir þannig að það er ekkert nýtt (Forseti hringir.) og ekkert sem ætti að koma mönnum á óvart í þeim efnum.