137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú er farið að færast fjör í leikinn hjá Vinstri grænum, nú er eitt stærsta vandræðamál ríkisstjórnarinnar af mörgum komið formlega á dagskrá þingsins og ég get ekki annað en vottað kjósendum Vinstri grænna um land allt samúð mína. Hér hefur verið gengið algjörlega frá þeirri stefnu sem þau boðuðu fyrir kosningar að þau væru á móti Evrópusambandinu. Hæstv. fjármálaráðherra fer hér eins og köttur í kringum heitan graut til að koma sér út úr vandræðunum.

Ég vil benda hæstv. fjármálaráðherra á að hann nefndi samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ríkisstjórnarsáttmála, það er rangnefni hjá hæstv. ráðherra því að eftir upplýsingum að dæma sem ég hef fengið frá vinstri grænum náðist einmitt ekki samkomulag um það í aðdraganda stofnunar þessarar ríkisstjórnar að kalla þetta plagg ríkisstjórnarsáttmála, þannig að það sé alveg á hreinu. Þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál. Og það er stór munur á samstarfsviljayfirlýsingu og ríkisstjórnarsáttmála. Líklega er það nákvæmlega það sem þessi tillaga hér gengur út á.

Báðir flokkarnir virðast vera að hrekjast frá kosningastefnumálum sínum en eins og staðan er í dag virðist Samfylkingin hafa vinninginn því að eins og við vitum náttúrlega er þetta eina stefnumál Samfylkingarinnar síðan hún var stofnuð, að ganga í Evrópusambandið, sama hvað það kostar. Hún hefur nú sitt þriðja ríkisstjórnarsamstarf og ætlar svo sannarlega að koma þessu máli á dagskrá sama þó að hún þurfi að knésetja samstarfsflokkinn, sama þó að hún þurfi að láta hann henda öllum stefnumálum sínum út, sama hvað það kostar. Evrópumálin eru svo sannarlega komin á dagskrá.

Ég bendi hæstv. fjármálaráðherra líka á að það verður ekkert mál að stefnu ríkisstjórnar sem báðir flokkarnir sem að henni standa, eða allir eftir því sem það á við, nema allir séu henni sammála og séu sammála um málsmeðferðina. Það þýðir því ekkert núna fyrir ráðherra Vinstri grænna að segja að þau séu ekki á þessari tillögu. Ef þau eru ekki á þessari tillögu og ef þau eru ekki sammála henni er ekki hægt að tala um að þessi Evróputillaga sé flutt í nafni ríkisstjórnarinnar, svo að það sé á hreinu. Þá verðum við að breyta tillögunni aftur í það sem hún var í upphafi, í einfalt þingmannamál, og þá mun utanríkisráðherra líklega flytja tillöguna eins og hann gerði í upphafi. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið eða Fréttablaðið, ég man ekki hvar hún birtist, þar sem ég bendi á að fullveldisafsal þjóðarinnar verður einungis afhent með vilja ríkisstjórnarinnar. Einföld þingmannaþingsályktunartillaga getur ekki farið svo með stjórnskipan okkar.

Hv. formaður utanríkismálanefndar lýsti hér eftir stjórnskipunarferli þjóðarinnar og ég er glöð að geta aðeins upplýst hann um það hvernig stjórnskipunin í þessu máli öllu er. Hún verður að vera með þeim hætti sem ég fór yfir áðan, að stjórnarflokkarnir verða að standa samhentir að tillögunni sé hún ríkisstjórnarmál, öðruvísi getum við ekki framselt fullveldi þjóðarinnar. Svo einfalt er það.

Fram kom í máli formanns Framsóknarflokksins og einnig í stefnuræðu forsætisráðherra að hæstv. forsætisráðherra var snupraður af þingmanni Vinstri grænna. Hún var beðin um að tala bara fyrir sinn flokk. Nú kem ég með spurningu um hvort hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, fái sömu meðhöndlun og hæstv. forsætisráðherra varðandi það að hann sé að tala fyrir aðra. En hæstv. fjármálaráðherra virðist tala fyrir sitt fólk í ríkisstjórninni alla vega en hann getur ekki tekið ábyrgð á afganginum af þingmönnum sínum því að eðlilega eru þau vinstri græn sem fylgja sannfæringu sinni í þessu máli ekki sammála þeirri málsmeðferð sem formaður þeirra er kominn með flokkinn sinn í. Hann brýtur hér bersýnilega eina kosningaloforðið sem hann setti fyrir kosningar, að ganga ekki í Evrópusambandið. Nú er hann kominn með Vinstri hreyfinguna – grænt framboð á fleygiferð inn í Evrópusambandið. Ég veit ekki hvort ég á að segja: Til hamingju, Íslendingar.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa sameinast um tillögu um framkvæmd og ferli mögulegrar aðildarumsóknar því að það er reglan í íslenskum rétti að framkvæmdarvaldið fari með utanríkismálin. Sterk rök liggja að baki því að aukin afskipti þingsins af utanríkismálum fari ört vaxandi eðli málsins samkvæmt í vaxandi alþjóðasamvinnu. Íhlutunarréttur Alþingis endurspeglast í 24. gr. laga um þingsköp Alþingis þar sem mælt er fyrir um skyldu ríkisstjórnar til þess að ráðfæra sig við utanríkismálanefnd í meiri háttar utanríkismálum. Hér erum við að tala um að ríkisstjórnir skuli ráðfæra sig við utanríkismálanefnd en ekki að segja henni fyrir verkum. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu.

Á þessum forsendum, með framlagningu þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar, eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn að bjarga þjóðinni frá stjórnskipunarréttarlegu slysi utanríkisráðherra sem samkvæmt þingsályktunartillögunni á þskj. 38 sem dreift var hér í morgun ætlar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu. Í málflutningi manna í dag hefur komið fram að málið skuli jafnvel fara í þann farveg að utanríkismálanefnd hafi eitthvað um málið að segja. Það er eðli málsins samkvæmt en ríkisstjórnin átti raunverulega að hafa samráð við utanríkismálanefnd áður en þingsályktunartillagan var lögð fram vegna þess að hún á að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar sérstaklega þar sem svo stórt mál er til umræðu eins og afsal á fullveldi þjóðar.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er sú ríkisstjórn sem hér situr hættuleg þjóðarhagsmunum og ráðherrarnir virðast ekki hika við að valta yfir stjórnarskrána sé þeim það til hagsbóta og þar með rétt þegnanna til að koma persónulegum og flokkslegum stefnumálum sínum í framkvæmd. Komið hefur fram í máli margra þingmanna, sérstaklega úr stjórnarandstöðunni, að þingsályktunartillagan sem utanríkisráðherra talaði hér fyrir í morgun er mjög illa og hroðvirknislega unnin. Hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi það meira að segja í ræðu sinni í morgun að hann væri nánast tilbúinn til að lúta í gras til þess að ná hér almennri samstöðu um þingsályktunartillöguna strax. Hvað er utanríkisráðherra að fara? Með þessum orðum er hann að lýsa því yfir að tillagan sé ekki nógu góð, að hún sé ekki nógu vandlega unnin, að það vanti samráð í hana. Við skulum átta okkur á því hvað þetta er mikið hagsmunamál fyrir Samfylkinguna að koma þessu máli í gegnum þingið núna.

Málin eru öll unnin eftir á, að því er virðist. Fyrst eru teknar ákvarðanir í Stjórnarráðinu, það eru mismunandi margir ráðherrar sem koma að þeirri ákvörðunartöku. Svo eru málin lögð fyrir þingið og þar skulu þau fá afgreiðslu. Jafnvel hefur það gengið svo langt að hæstv. forsætisráðherra hefur hótað því að rjúfa þing vegna þess að Samfylkingin hefur ekki gert neitt til að koma þessu máli á dagskrá. Málið er illa unnið, það hefur engin undirbúningsvinna átt sér stað í Samfylkingunni þó að þetta sé þeirra eina stefnumál. Þeir hafa ekki lagt fram neina vinnu við að reyna að breyta stjórnarskránni fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Og Samfylkingin hefur ekki frekar en Vinstri græn lagt fram nokkra vinnu til að sé hægt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara hér fram.

Nú liggur fyrir skipun ríkisstjórnarinnar um að frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu skuli unnið á næstu 100 dögum. Frumvarpið átti að leggja hér fram samhliða þingsályktunartillögunni, eins og segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Ekkert bólar á því frumvarpi. Ég sit í þeirri nefnd fyrir hönd flokksins og ég get upplýst þingið um að það mál er komið afar stutt á leið. Með þessu upplýstist enn einu sinni handarbakavinna þessara flokka. Við skulum átta okkur á því að það er ekki ákvæði í stjórnarskránni um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi fullveldisafsal þjóðarinnar.

Í stjórnarskránni eru þrjú ákvæði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur: Þegar þingið vill víkja forseta, þegar forseti neitar að skrifa undir lög og breyting á kirkjuskipan. Úr því að ekki er ákvæði í stjórnarskránni um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi fullveldisafsal getur sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem mun fara fram í kjölfarið — ef hún nær fram að ganga og það frumvarp verður að lögum — einungis orðið ráðgefandi. Þá spyr ég íslensku þjóðina: (Gripið fram í.) Treystir þjóðin þessari ríkisstjórn til að fara eftir úrslitum þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu ef samningar nást og málin fara í þann farveg að þjóðin fái einhvern tíma að greiða atkvæði um málið? Hafa ráðherrar Samfylkingarinnar farið að vilja þjóðarinnar hingað til? Verða ekki fundin einhver rök fyrir því að munurinn sé ómarktækur og endurspegli ekki vilja þjóðarinnar? Muna ekki allir eftir orðunum úr Háskólabíói sem þáverandi formaður Samfylkingar lét falla: Þið eruð ekki þjóðin? Við skulum ekki gleyma fortíðinni, (Gripið fram í.) hvernig Samfylkingin hefur valtað yfir íslensku þjóðina og (Gripið fram í.) þegna hennar.

Að mörgu leyti komu líka fram stórfréttir áðan þegar hæstv. félagsmálaráðherra tjáði sig um að aðilar vinnumarkaðarins og íslenskir kjarasamningar væru í uppnámi. Ég vona að fréttamenn taki þetta upp og spyrji félagsmálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins að því hvað hann átti við. Komnar eru fram hótanir um að samþykki þingið ekki þessa þingsályktunartillögu og afgreiði hana í flýtimeðferð geti aðilar íslensks vinnumarkaðar ekki samið. Hvers lags eiginlega hótanir eru hér á ferðinni? Ég held að Samfylkingin ætti að róa sig í þessu máli, ég held að hún ætti að lesa betur plaggið sem stjórnarandstaðan lagði fram í morgun um vandaða málsmeðferð og reyna að vinna málin með þeim hætti að þau verði ásættanleg því að þarna er kominn stökkpallur fyrir þessa vandræðalegu ríkisstjórn út úr sínum vandamálum og þá tala ég sérstaklega til ráðherra Vinstri grænna.

Ég hefði gjarnan viljað hafa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hér en hann læðist náttúrlega með veggjum í þessu máli, lætur ekki sjá sig í þingsal. Hann á líklega líka eftir að læðast með veggjum út af Evrópumálinu til framtíðar en út frá því sem ég hef farið yfir er hann líklega flutningsmaður þeirrar tillögu. Ég ætlaði að krefja hann svara um hvort hann væri það — nei, já eða nei — en hann passar sig að sjálfsögðu á því að vera ekki hér.

Hv. þm. Birkir Jón biður mig um að óska eftir honum í þingsal og geri ég það hér og nú. Virðulegi forseti. Ég óska eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komi hér í þingsal, í púlt, og komi í andsvör við mig. Ég óska eftir því að orðið verði við þeirri beiðni.

Ágæti forseti, virðulegi forseti. Nú hef ég stiklað á stóru um þau vandræðamál sem þessi ríkisstjórn er búin að koma sér í varðandi svikin kosningaloforð, varðandi meiningarmun á því hver sú ábyrgð er að sitja í ríkisstjórn eða ekki. Vinstri græn sitja að vísu í fyrsta sinn í ríkisstjórn sem flokkur þó að hæstv. fjármálaráðherra — ég hélt á tímabili um daginn að hann væri fósturfaðir minn, hann kallaði sig og hæstv. forsætisráðherra mömmu og pabba þingsins, ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hann var að fara. Nú situr hann með flokk sinn í fyrsta sinn í ríkisstjórn og hann og samráðherrar hans átta sig ekki á því hver ábyrgðin er. Þeir átta sig ekki á því hvert stjórnskipunarlegt ferli mála er í þinginu og svoleiðis verður það víst að vera. Við skulum óska eftir því að þeir reyni að læra af þeim mistökum en þarna er heldur betur illa farið fyrir Vinstri grænum.