137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar fróðlega og yfirgripsmikla ræðu. Ég dreg ekki í efa þekkingu hennar og reynslu á málaflokknum.

Ég hnaut um eitt sem þingmaðurinn sagði. Það var að við þyrftum að hafa aðgengi að fundarborðunum, við þyrftum sem aðilar að EES-samningnum að taka möglunarlaust yfir allar gerðir Evrópusambandsins og það væri ekki fyrr en við værum orðin fullgildir aðilar að við gætum haft áhrif á þær gerðir og tilskipanir sem þar eru samþykktar.

Í utanríkismálanefnd 8. október 2008 var samþykkt skýrsla utanríkismálanefndar um fyrirkomulag á þinglegri meðferð EES-mála. Þessi skýrsla var unnin að beiðni hæstv. forseta þingsins og það kom fram í vinnu nefndarinnar sem ég átti sæti í um þær mundir að Alþingi og Ísland hefur, þvert á það sem oft hefur verið haldið fram, haft margvísleg tæki og leiðir til þess að hafa áhrif á tilskipanir og gerðir á mótunarstigi. Það hefur ekki skort reglur heldur höfum við einfaldlega ekki nýtt okkur þau tækifæri sem við höfum getað haft til þess að hafa áhrif á EES-samninginn og þær reglur sem við höfum þurft að taka. Raforkutilskipunin er til dæmis nefnd mjög oft. Við innleiddum hana þrátt fyrir það að hún ætti ekki við hjá okkur með sama hætti og meginlandsþjóðunum og Evrópusambandsþjóðunum vegna þess að við áttuðum okkur ekki á því.

Ég minnist þess að hæstv. fjármálaráðherra sem þá átti sæti í utanríkismálanefnd sagði að honum þætti bara leitt að þurfa að viðurkenna (Forseti hringir.) að þetta væri — fyrirgefðu — að þetta væri eitthvað sem við þyrftum að skoða vegna þess að við hefðum (Forseti hringir.) ekki unnið vinnuna okkar. Þess vegna spyr ég: Fyrst að við erum ekki að nota — afsakið, frú forseti — (Forseti hringir.) fyrst að við erum ekki að nota það sem við höfum núna hefur þú (Forseti hringir.) einhverja trú á því að við munum frekar gera það innan Evrópusambandsins?

(Forseti (UBK): Ég minni hv. þingmenn á að tímastillingin í ræðupúltinu er ekki rétt.)