137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að í gegnum EES-samninginn höfum við möguleika til þess að hafa áhrif á gerðir þegar þær eru á undirbúningsstigi. Við getum skipað sérfræðinga í nefndir.

Við erum hins vegar ekki þar þegar ákvarðanir eru teknar. Við erum ekki í fundarsölunum. Við höfum ekki aðgang að ráðherraráðinu. Við höfum ekki aðgang. Við erum ekki í þinginu. Við getum reynt að lobbíera sem einhver kallaði held ég gangapot. Var það ekki það sem einhver kallaði það? Mér finnst það gott orð. (Gripið fram í.) Gangapot? Það er hárrétt. Og það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að ég tel að við höfum ekki notað öll þau tæki sem við höfum í EES-samningnum. En á hinn bóginn trúi ég því líka að ef við og vonandi þegar við verðum aðilar þarna að þá komum við okkur þannig fyrir að við fylgjumst með. Það er það sem litlar þjóðir gera. Þær leggja áherslu á ákveðna málaflokka og fylgjast þar vel með og þar eru þeir taldir sérfræðingar í þessum málum. Þar getum við gert það jafn vel og aðrar þjóðir og erum yfirleitt bara mjög góð í því sem við gerum á slíkum vettvangi.