137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er rétt að við höfum ekki aðgang að ráðherraráðinu. En mín skoðun er sú að fyrst að við erum ekki núna að nota þau tæki sem við höfum samkvæmt EES-samningnum þá dreg ég í efa að það eitt að við það að ganga í sambandið þá breytist þetta vinnulag, við það eitt, vegna þess að ég held að undirbúningsvinnan og áhrifin á málin á mótunarstigi séu engu minna mikilvæg en ákvörðunin sem tekin er við ráðherraborðið vegna þess að við vitum að ákvörðunin er ekki tekin við ráðherraborðið án þess að hún hafi verið rædd. Og þegar við höfum ekki komið okkar málum á framfæri á mótunarstigi eins og við getum gert núna — af því hef ég miklar áhyggjur. Ég held að þetta snúist ekkert um áhugaleysi okkar eða áhrifaleysi innan samningsins. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um það að við erum fáliðuð. Þetta kostar peninga og um það er þessi skýrsla sem ég vísaði til. Ég spyr í leiðinni hv. varaformann utanríkismálanefndar hvort verið sé að vinna eftir þeim tillögum sem við lögðum til. Ég leyfi mér hins vegar að draga það í efa vegna þess að þær tillögur kostuðu peninga og eins og allir vita þá erum við kannski ekki aflögufær um ýmislegt núna. En þá er það nefnilega akkúrat málið og hæstv. fjármálaráðherra sagði það hérna áðan, að vandamál Íslands verða leyst heima fyrir. Við erum ekki mjög fjáð um þessar mundir. Hvað mun breytast við að ganga í Evrópusambandið? Við munum ekki geta sett fleira fólk, meiri pening, meiri tíma og tæki í þessi mál á mótunarstigi en við höfum tækifæri til að gera núna og gerum ekki. Það er punkturinn.