137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega merkilega ræðu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri samfylkingarfólk tala öðruvísi en í núinu, öðruvísi en að tala um akkúrat vandamál næstu vikna, samninga, kjarasamninga meira að segja. Við eigum að ganga í Evrópusambandið til að geta gert kjarasamninga. Menn eru sem sagt bara akkúrat í núinu. En hér var farið langt aftur í tímann. Einmitt á það hef ég lagt áherslu. Við erum að taka ákvörðun um afkomu og stöðu íslensku þjóðarinnar til alda, til margra alda.

En mér finnst nokkuð vanta. Hv. þingmaður fór mjög vel í gegnum alla forsöguna, hvernig Evrópusambandið hefur breyst, mjög hratt. En hún virtist ekki átta sig á því að Evrópusambandið var að breytast mjög hratt í átt til ríkis, mjög hratt í átt til ríkis, mjög hratt í átt til bandaríkis, til bandaríkja Evrópu og hún dró enga ályktun af því hvernig yrði fyrir Ísland að vera pínulítill hreppur í risaríki eftir 50–100 ár því ályktunin stoppaði í núinu. Fortíðin lá fyrir og svo stoppaði hv. þingmaður í núinu og það virtist allt vera óbreytanlegt eftir það.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Trúir hún því að þróunin í Evrópusambandinu stoppi þegar Ísland gengur þarna inn, að þá bara hætti allt? Trúir hún því? Núna ætlar Evrópusambandið að fara að breyta sjávarútvegsstefnunni. (Gripið fram í.) Ég segi eins og í morgun. Drottinn gaf og Drottinn tók. Þeir sem geta breytt sjávarútvegsstefnunni í þessa veru geta breytt henni í hina veruna líka. Og munu þeir ekki breyta sjávarútvegsstefnunni bara eftir tíu ár af því það vantar fisk? Munu þeir ekki breyta orkustefnunni eftir 15 ár af því það vantar orku, af því að Rússarnir eru leiðinlegir? Mun ekki Evrópusambandið breytast í ríki og Ísland verða pínulítill hreppur í því?