137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór í gegnum það hvernig Evrópusambandið var mjög lauslegt samband ríkja til að byrja með. Það er það ekki lengur, það er það alls ekki lengur. Það er með sameiginlega löggjöf, það er með sameiginlega mynt að einhverjum hluta, það er með sameiginlega utanríkisstefnu. Danir geta ekki samið við Kínverja um viðskiptamál, þeir eru ekki sjálfstæðir lengur. Evrópusambandið er að breytast mjög hratt í átt til ríkis og svo vantar stjórnarskrá. 40 þúsund eða 50 þúsund embættismenn í Brussel vinna alla daga, þeir eru núna á fundi við að reyna að koma á nýrri stjórnarskrá, reyna að koma á nýju batteríi, reyna að breyta þessu í ríki. (ÁÞS: Þá verða Rússar gengnir í Evrópusambandið.)

Menn þurfa virkilega, þegar þeir taka svona ákvörðun fyrir íslensku þjóðina — við börðumst fyrir sjálfstæði í áratugi og eftir að við fengum fullveldi og sjálfstæði hefur þjóðinni vegnað mjög vel. Hún hefur breyst úr því að vera fátækasta þjóð í Evrópu í það að verða ein ríkasta, jafnvel eftir hrun. Fullveldið hefur því gefið okkur eitthvað og ég vil ekki að menn hendi því svona léttúðlega frá sér, horfandi á einhverja augnabliksstöðu og gleyma því að Evrópusambandið er að breytast í risaríki.

Við höfum 600 ára reynslu af því að vera í tengslum við ríki suður í Evrópu og sú reynsla var ekki góð. Hún var verulega slæm. Ekki vegna þess að Danir væru vont fólk heldur vegna þess að þeir höfðu engan skilning á vandamálum Íslendinga, engan áhuga á þeim. Það verður nákvæmlega eins með Brussel. Þar munu menn ekki hafa skilning á vandamálum Íslands, þeir munu ekki hafa áhuga á þeim og við þurfum að fara að grafa upp gömul bænaskjöl frá 17. öld.