137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Evrópusambandið er samstarf ríkja. (PHB: Ekki lengur.) Jú, jú. Hv. þingmanni er vel kunnugt um það að breytingin á stjórnarskránni sem kölluð er núna hjá Evrópusambandinu hefur gengið mun hægar en þeir sem vilja fara hraðast í þeim efnum hefðu kosið. Vegna þess að þjóðir geta breyst, vegna þess að Írar höfnuðu þessari breytingu í atkvæðagreiðslu. (PHB: Og reyndu aftur.) Ég held að við gerum það öll, ef við höfum eitthvað sem við teljum gott reynum við aftur og við breytum. Ég tel það ekki neinni manneskju eða neinu samstarfi til hnjóðs að reyna að ná þeim árangri sem menn telja bestan. Auðvitað er alltaf einhver á móti. Við náum aldrei endanlegu samkomulagi í öllum málum. Ég mótmæli því líka að með því að deila fullveldi í ákveðnum þáttum með öðrum þjóðum afsölum við okkur sjálfstæðinu. Ég bara mótmæli því. Ég held líka að sú söguskoðun að Danir hafi reynst okkur ákaflega illa í gegnum aldirnar sé röng.