137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð ræða og væri nú að æra óstöðugan að reyna að veita málefnalegt svar.

Ég vil þó segja þetta: Það sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa gert er að leggja fram þingsályktunartillögu um málsmeðferð. Það er alveg rétt af því að við ræðum hér einmitt um málsmeðferð, þ.e. hvernig Alþingi á að taka ákvörðun um hvort sækja eigi um aðild að ESB eða ekki. Annars vegar er sú tillaga sem lögð hefur verið fram um að veita ríkisstjórninni heimild til að fara af stað án nokkurra skilyrða, án nokkurrar annarrar umræðu en þessarar. Hins vegar er tillaga okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um að búinn verði til vegvísir um það hvernig slíkar viðræður ættu að fara fram, hvernig standa eigi að þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig standa eigi að breytingum á stjórnarskránni. Þegar allt þetta liggur fyrir, sem er alveg nauðsynlegt vegna þeirra raka (Forseti hringir.) sem ég fór yfir áðan, getur Alþingi (Forseti hringir.) tekið ákvörðun um hvort það eigi að ganga til aðildarviðræðna eða ekki.