137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega það sem stendur til að gera. Hér liggja fyrir tvær tillögur fyrir þinginu, önnur frá stjórn og hin frá stjórnarandstöðu. Þær snúa báðar að því sama, að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Lagt er til hvort sitt málsmeðferðarferlið og hvort sitt verklagið (Gripið fram í.) en stjórn og stjórnarandstaða eru meira og minna sammála um efni máls og það eru stór tíðindi. Það er þess vegna sem dagurinn í dag er ekki bara sögulegur vegna þess að hér er stærsta máli okkar samtíma skotið til þings og síðan til þjóðar, heldur líka vegna þess samhljóms sem er innan þingsins um að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Hér er deilt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um verklag og málsmeðferð. Það er í sjálfu sér smáatriði miðað við að það er samhljómur um efni málsins, að sótt verði um aðild. Ég treysti utanríkismálanefnd Alþingis (Gripið fram í.) fullkomlega til að útfæra þessa málsmeðferð og verklag fullkomlega.

Notum tímann í dag til að ræða um efni málsins og (Forseti hringir.) hvaða efnislegu skilaboð við viljum senda til utanríkismálanefndar.