137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma örstutt inn á eitt atriði sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi í máli sínu og hefur svo sem komið fram hjá fleirum. Það varðar umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðslu, að hvað miklu leyti hún er bindandi, ákvarðandi eða ráðgefandi. Að sjálfsögðu getur þjóðaratkvæðagreiðsla aldrei orðið nema ráðgefandi samkvæmt lagaramma okkar og stjórnarskrá.

Ég lít hins vegar svo á að ef mál er borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu og það samþykkt, séu menn nú býsna bundnir af þeirri niðurstöðu sem út úr henni kemur. (REÁ: Enda var sá samningur felldur.) Ég tala fyrir sjálfan mig hvað það snertir.

Sagt hefur verið að hér muni verða flutt frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu sem setur almennan ramma um þjóðaratkvæðagreiðsluna. En ég veit ekki betur en að í Noregi hafi t.d. sú leið verið farin að þar voru sett sérstök lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að Evrópusambandinu þegar samningurinn lá fyrir. Þá voru sett lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem m.a. (Forseti hringir.) spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni var fastákveðin. (Forseti hringir.) Ég tel því að það þurfi að minnsta kosti að hafa þetta í huga og (Forseti hringir.) það muni koma til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar.