137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt eitt af þeim málum sem ég tel að þurfi að ganga frá áður en þessi vegferð hefst. Ég tel að það sé nauðsynlegt að við séum búin að mynda okkur skoðun um þetta, það sé niðurneglt.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki bindandi nema um sé að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu sem á sér uppruna í 26. gr. stjórnarskrárinnar. En það kann að fara svo að það verði gríðarlega mjótt á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá verða menn auðvitað að muna að í þessu máli eins og öllum öðrum greiða alþingismenn atkvæði í samræmi við sannfæringu sína og geta ekkert vikið frá því hvernig svo sem þjóðaratkvæðagreiðsla fer. Menn eru bundnir af sannfæringu sinni.

Það þarf þá væntanlega að gera breytingar á stjórnarskránni sem snúa að þjóðaratkvæðagreiðslum til þess að hægt sé að bera þetta mál fyrir þjóðina með þeim hætti að þjóðin hafi lokaorðið.

Það eru ýmis svona mál (Forseti hringir.) sem ég tel alveg gríðarlega nauðsynlegt að búið sé að ganga frá áður en (Forseti hringir.) Alþingi veitir ríkisstjórninni heimild til þess að ganga til samninga.