137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með þingmanninum, ég tel að það eigi a.m.k. að ræða þessi mál, hvernig standa eigi að þjóðaratkvæðagreiðslu ef og þegar til hennar kemur.

Ég er þeirrar skoðunar, án þess að hafa gruflað mjög mikið í þessu með þjóðaratkvæðagreiðsluna, að Alþingi þyrfti að ákveða texta spurningarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna held ég að það sé í raun ekki hægt að taka ákvörðun um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í tengslum við aðild að Evrópusambandinu fyrr en samningurinn liggur fyrir og menn vita um hvað þeir ætla að spyrja.

Það er að sjálfsögðu hægt að setja almennan ramma í löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt séð. En þegar að því kemur að aðildarsamningur liggur fyrir, ef málið gengur svo langt, og það á að bera hann undir þjóðina tel ég að Alþingi þurfi að koma að því að ákveða með hvaða hætti verður spurt. Þá dugar ekki einhver almennur lagarammi um þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) heldur verður Alþingi að koma beint að því að ákveða hvernig spurningin mun hljóða.