137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir að Alþingi yrði væntanlega að orða þá spurningu sem færi til þjóðarinnar. En án þess að ég geti borið fyrir mig mikla kunnáttu í lögfræði mundi ég ætla að til þess að slík atkvæðagreiðsla hefði eitthvert gildi þyrfti að liggja fyrir breyting á stjórnarskránni sem snýr að þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að hún yrði ekki bara skoðanakönnun. Þannig þyrfti að búa um hnútana að þjóðin geti með sanni tekið ákvörðun um þetta mál. Það sé þjóðarinnar að kjósa um það og lokaorðið verði hjá henni, að annars yrði það áfram hjá Alþingi.

Þetta er því enn og aftur dæmi um mál sem er svo miklu betra að við göngum frá hér á Alþingi, að við búum til þennan vegvísi áður en við tökum þá ákvörðun að ganga til samningaviðræðna við ESB.