137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur segi ég að þarna er mergurinn málsins hvað varðar stjórnarskrána, að við þurfum að hafa gengið kirfilega og vel frá þessum málum. Það er ekki góður bragur á því fyrir Alþingi að halda áfram með þetta mál án þess að sá vegur liggi fyrir. Ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt.

Það er auðvitað líklegt þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni — það verður þá gert í almennum kosningum — að sú breyting sem snýr að því að heimila framsal á fullveldi landsins, sem þyrfti þá að gera, verði í raun og sanni kosning um hvort menn eru með eða á móti ESB. Það er mjög líklegt vegna þess að þeir sem eru á móti aðild munu gera það sem þeir geta til þess að fella slíka stjórnarskrárbreytingu og þeir sem vilja aðild munu þá væntanlega styðja hana.

Það eru því ýmis álitamál uppi og átakamálin verða mörg sem íslenska þjóðin þarf að takast á við vegna þessa (Forseti hringir.) máls alls.