137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sækir maður um aðild að einhverjum félagsskap ef ekki liggur einhver alvara þar að baki og raunverulegur áhugi og vilji er fyrir hendi sem knýr mann til þess að láta á það reyna hvort maður kemst í félagsskapinn á sínum forsendum eða ekki? Ég segi nei. Í mínum huga hlýtur mikil alvara og áhugi að liggja að baki aðildarumsókn að Evrópusambandinu, ákvörðun sem tekin er þegar 95% af því í hverju aðild felst eru þekkt.

Hver eiga forgangsmálin að vera þegar þjóðin stendur frammi fyrir mesta efnahagshruni Íslandssögunnar og verkefnin heima fyrir hrannast upp og kalla á alla okkar krafta og fjármuni sem við höfum úr að spila? Eigum við þá að verja miklum kröftum og fjármunum og orku í að vinna að samningsgerð við ESB sem kallar á klofning og sundrungu meðal þjóðarinnar sem ekki er á bætandi í þeim miklu erfiðleikum sem þjóðin gengur í gegnum?

Er Evrópusambandið aðildarríkjum sínum það skjól í þeirri heimskreppu sem gengur yfir hinn vestræna heim? Nei. Svo virðist ekki vera. Mörg ríki eiga þar í miklum vanda og búa við gífurlegt atvinnuleysi sem er eitt mesta einkennið á atvinnulífi í Evrópu. Við getum nefnt lönd eins og Lettland, Spán og Írland. Mismunandi efnahagsaðstæður í aðildarríkjum Evrópu auka enn frekar líkur á auknu atvinnuleysi í jaðarríkjum sem Ísland kæmi til með að vera.

Fall krónunnar hefur ýtt undir áhuga almennings á möguleikum á upptöku annars gjaldmiðils og er það vel skiljanlegt. En það liggur fyrir að það munu líða mörg ár þar til að við uppfyllum skilyrðin um upptöku evru og skuldir þjóðarbúsins verða aðeins 60% af vergri landsframleiðslu þannig að ekki er evran í hendi þótt innganga í ESB verði samþykkt. Krónan verður því að duga okkur enn um sinn þótt vissulega verði að skoða alla þá möguleika sem við eigum í gjaldmiðilsmálum.

Mikill lýðræðishalli hefur einkennt Evrópusambandið og hefur það verið að þróast hratt í átt til stórríkis þar sem völd lítilla ríkja fara sífellt minnkandi og hinna stóru vaxandi. Hvert yrði nú vægi Íslands í valdakerfinu í Brussel? Við fengjum þrjú atkvæði af 350 í ráðherraráðinu þar sem veigamestu ákvarðanir eru teknar, fimm atkvæði af 750 fulltrúum á ESB-þinginu. Það sýnir okkur hversu agnarsmátt peð við yrðum á skákborði ESB og hversu miklu valdi við yrðum að afsala okkur til embættismannakerfisins í Brussel.

Fullveldisframsal sem fælist í aðild að ESB er stórhættulegt lítilli þjóð sem á sér langa sögu í baráttu fyrir fullveldi og sjálfstæði og yfirráðum yfir fiskveiðilögsögu landsins. Íslendingar þyrftu að gangast undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB og ekki hefur neinu ríki enn tekist að fá undanþágu frá þeirri reglu. Nú stefnir Evrópusambandið að því að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína og jafnframt að frjálsu framsali sem við Íslendingar þekkjum mætavel og viljum mörg hver komast út úr sem fyrst.

Evrópusambandsaðild opnar á erlenda fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi. Fyrirtæki í sjávarútvegi, sem eru mörg hver mjög skuldug, gætu færst í hendur erlendra auðmanna og arðurinn og kvótinn færu úr landi. Það færi í burtu eins og svo mörg sjávarþorp hafa þurft að þola.

Íslenskur landbúnaður hefur aldrei verið okkur mikilvægari en nú þegar við þurfum að tryggja fæðuöryggi í landinu og framleiða sem mest af matvöru okkar innanlands og spara okkur gjaldeyri. Aðild að Evrópusambandinu yrði stórhættuleg fyrir búvöruframleiðslu í landinu og mundi valda miklu atvinnuleysi víðs vegar um landið, jafnvel byggðarhruni sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Við sem viljum standa vörð um fullveldi landsins, tryggja yfirráð yfir náttúruauðlindum þess, hafa svigrúm til að gera samninga við önnur ríki ásamt því að tryggja lýðræðið í landinu í stað valdaafsals til Brussel, getum ekki skrifað upp á aðildarumsókn til Evrópusambandsins.

Einnig bendir margt til þess að Evrópusambandið sé að efla hernaðarmátt sinn og stefna að Evrópusambandsher sem er okkur friðarsinnum mjög á móti skapi. Þau sjónarmið eru uppi að nauðsynlegt sé að sækja um aðild og sjá hvað í boði er en fella svo samninginn ef hann er óásættanlegur. Gott og vel, það er sjónarmið út af fyrir sig. En væri það nú ekki ódýrara og einfaldara fyrir þjóðina að fá fram í könnunarviðræðum hvað stendur til boða fyrir utan þau 95% upplýsinga sem þegar liggja fyrir?

Þetta er versti tíminn sem hugsast getur til að óska eftir aðild að ESB. Þjóðin er í sárum, hún er veik fyrir og samningsstaðan er engin. Við skulum minnast þess hvað framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kostaði okkur, 500 millj. kr. Hve mörgum sinnum meira mun tveggja ára umsóknarferli kosta okkur fyrir utan allan þann tíma sem ferlið tæki frá uppbyggingarstarfi innan lands? Það mundi auk þess valda miklum óróleika í þjóðfélaginu.

Nei. Við eigum að einbeita okkur að endurreisn íslensks efnahags. Það gerir enginn það fyrir okkur eins og dæmin sanna. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er ekkert annað en villuljós í myrkri.