137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega góða ræðu, hún er eins og töluð úr mínu hjarta. Ég skynja mikla nauð hjá mörgum hv. þingmönnum Vinstri grænna og ég skynja hana líka hjá einstökum flokksmönnum Vinstri grænna. Þeir vilja jú að sjálfsögðu komast að sem ráðherrar og fá að stjórna málum, koma á þeim sósíalisma sem þá dreymir um og ég skil það ósköp vel þó að ég sé kannski ekki alveg sammála því. Þeir vilja gjarnan koma sínum málum að og þeir fórna ansi mörgu fyrir það. Nú er bara spurningin: Er fórnin að verða of mikil?

Ég vil minna á það þegar vinstri grænir þingmenn hér í þingsal ætluðu aldrei að samþykkja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Svo var því bara allt í einu kyngt og það var bara ágætt að tala við þessa menn og nú er unnið í góðu samstarfi við þá sem voru óalandi og óferjandi fyrir nokkrum mánuðum.

Svo átti heldur aldrei að samþykkja Icesave. Nú er ekki lengur verið að tala um það, verið er að tala um vexti af einhverjum skuldum þannig að menn eru búnir að samþykkja Icesave líka. Svo gerist það núna með Evrópusambandið, sem var nú eiginlega meginmálið, að menn bakka með það líka. Þetta eru allt saman 180° beygjur hjá vinstri grænum til þess að koma sínum vinstri sjónarmiðum að í ríkisstjórn og ég get alveg skilið það allt saman.

Það sem ég er að velta fyrir mér er: Hver er ábyrgð þingmanna sem láta það viðgangast að þeirra menn í ríkisstjórn komi með aðildarbeiðni? Segjum að þetta verði samþykkt, segjum að þjóðin samþykki svo samninginn vegna þess að hún er beitt fagurgala, hótunum og loforðum, eins og hér hefur komið fram. Sagt er: Það er ekki hægt að semja í kjarasamningum, það er ekki hægt að gera hitt og þetta, en ef þið samþykkið þetta, elskurnar, fáið þið þetta og þetta, og þjóðin samþykkir samninginn. Á endanum sitja þessir sömu þingmenn uppi með að þjóðin er orðin aðili að Evrópusambandinu. Hver er þá ábyrgð þeirra?