137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er jú formaður flokks hv. þingmanns sem er einn af tveimur gerendum í ríkisstjórninni. Það er hann sem er að keyra þetta í gegn. Og ef á endanum, þó að hann sé á móti því, þó að hann sitji hjá og þó að hann greiði þessu jafnvel atkvæði — segjum að þetta verði samþykkt og við sækjum um aðild. Síðan kemur einhver samningur til baka um þetta og hitt, að við megum borða hákarl í 15 ár og hnoðmör í 10 ár (Gripið fram í.) munu aðildarsinnar segja með fagurgala, hótunum, loforðum og töfrabrögðum: Hér hafið þið samning. Ef þið takið hann fáið þið þetta og þetta og lífið verður allt miklu léttara, skuldirnar hverfa, vextirnir lækka, lífskjörin batna, verðlag lækkar o.s.frv. Ef þið samþykkið ekki samninginn er allt í volli. Við getum ekki gert kjarasamninga, hér verður óstöðugleiki, hér verður óðaverðbólga o.s.frv. Mönnum verður bæði hótað og lofað.

Segjum að þjóðin samþykki þennan samning í kjölfar slíks fagurgala, töfrabragða og hótana, hver er þá ábyrgð almennra þingmanna Vinstri grænna í því að þetta varð svona? Íslendingar sitja allt í einu í Evrópusambandinu og allt það gerist sem hv. þingmaður nefndi með réttu, landflótti, kvótinn kominn til Evrópusambandsins o.s.frv. Það getur allt gerst. Hver er þá ábyrgð hv. þingmanna Vinstri grænna og þáttur þeirra í þessu?