137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Sú sem hér stendur hefur lengi beðið þessa dags. Það var að rifjast upp fyrir mér að það var fyrir einum fimmtán árum eða svo að ég sat í stjórn Evrópusamtakanna með góðu fólki úr öllum stjórnmálaflokkum íslenskum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Kvennalistanum sem ég tilheyrði þá, og þá voru miklar umræður í gangi um stöðu Íslands í ljósi þess að við værum jú aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og hvort okkur bæri ekki að fara sömu leið og Svíar og Finnar og Austurríkismenn ákváðu að gera, að taka skrefið til fulls og gerast aðilar að Evrópusambandinu.

Síðan eru liðin mörg ár og margt hefur gerst og margt breyst í íslensku samfélagi. En það hefur ekki haggað þeirri grundvallarsannfæringu minni og pólitísku skoðun að Ísland eigi heima í nánu samstarfi við önnur ríki innan Evrópusambandsins og það sé bæði til heilla fyrir Ísland og Íslendinga og einnig til heilla fyrir Evrópusambandið.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór hér vel yfir söguna og hugsjónina á bak við Evrópusambandið. Hugsjónina um frið og frelsi, um lýðræði, um mannréttindi og ekki síst réttindi minnihlutahópa. Þetta er líka hugsjón um viðskiptafrelsi eins og við þekkjum og jöfnuð og jafnræði. Og eins og hv. þingmenn vita höfum við í fimmtán ár, frá 1. janúar 1994, verið fullgildir aðilar að innri markaði Evrópusambandsins á hinu Evrópska efnahagssvæði og í gegnum þann samning tekið yfir um 4.000 gerðir og leitt í íslenska löggjöf. Ég gæti sett á langa ræðu um það hvernig þessar innleiðingar og innleiðing þessara gerða í íslenska löggjöf hefur fært margt til betri vegar í samfélagi voru, hvort sem það er í atvinnurétti eða á vinnumarkaði eða í umhverfismálum, sem ég þekki nokkuð til, en þorri þeirrar löggjafar sem sett hefur verið á sviði umhverfismála á Íslandi síðasta áratug hefur komið beina leið í gegnum EES-samninginn inn á Alþingi Íslendinga.

Menn hafa lengi haldið því fram að við hefðum hvort eð er getað gert þetta allt saman að eigin frumkvæði, en alla vega þau ár sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sátu hér í ráðherrabekkjunum var lítill áhugi á því að hafa frumkvæði að löggjöf á sviði umhverfismála eða umhverfisréttar og það sem þó var gert til bóta var vegna þess að menn urðu að gera það.

Hér hafa einnig orðið nokkrar umræður um hvað Ísland og Íslendingar hafi að segja eða hvort við höfum eitthvað fram að færa eða hvort einhver muni hlusta á okkur. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að ég botna ekki alltaf í þessum fullyrðingum. Ísland er lítil þjóð, það er alveg rétt, við erum örsmátt ríki í hinu stóra samhengi en við tilheyrum hins vegar miklum fjölda smáríkja sem sumir mundu kalla öryggi. Við erum hins vegar bæði sjálfstæð og fullvalda þjóð og förum í samstarf við aðrar þjóðir sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Rödd okkar skiptir alveg jafnmiklu máli innan alþjóðastofnananna og á hinum alþjóðlega vettvangi og rödd þeirra þjóða sem hafa milljónir eða jafnvel hundruð milljóna manna á bak við sig.

Það er þannig sem við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi. Og af hverju vil ég taka dæmi um samstarf á sviði umhverfismála? Þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda mæta til fundar til samninga í loftslagsviðræðum um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna sitjum við oft með vinum okkar frá Indlandi vegna þess að stafrófsröðin er þannig. Við fáum alveg jafnmörg sæti við borðið. Það vill hins vegar þannig til að við erum 300 þúsund en Indverjar eru líklega orðnir rúmur milljarður. Rýmið sem hvert sjálfstætt og fullvalda ríki tekur á hinum alþjóðlega vettvangi mælist ekki í magni eða fjölda íbúa heldur í styrk þeirra hugsjóna sem ríkið byggir á og í þeim styrk sem alþjóðarétturinn og þjóðarétturinn veitir hverju fullvalda og sjálfstæðu ríki. Þannig vinnum við á alþjóðavettvangi og þannig eigum við auðvitað að vinna á alþjóðavettvangi og þannig mun Ísland vinna innan Evrópusambandsins ef íslenska þjóðin ákveður að við eigum að ganga þar inn.

Í þessu felst að sjálfsögðu mikil pólitísk ákvörðun og pólitísk skref sem gæti markað mikil skil í sögu lýðveldisins. Líklega erum við að taka hér einhverja veigamestu ákvörðun sem við höfum staðið frammi fyrir lengi, áratugum saman. Verði það niðurstaðan að sótt verði um aðild og síðan gengið til atkvæða um aðildarsamninginn verður það auðvitað einhver mesti viðburður í sögu lýðveldisins sem er 65 ára.

Það skiptir máli að með þessari ákvörðun erum við líka að gefa umheiminum til kynna hvert við viljum fara og hver samastaður Ísland er í samfélagi þjóðanna. Það er einlæg sannfæring mín að samastaður Íslands er á meðal annarra lýðræðisríkja í Evrópu innan Evrópusambandsins þar sem ríki eiga í samvinnu á jafnréttisgrundvelli. Og það er þá einnig þannig að ákvörðun um að fara í aðildarviðræður og taka það pólitíska skref sendir mjög skýr skilaboð til umheimsins um það hvert Ísland stefni. Það skiptir verulega miklu máli á þessari stundu. Það skiptir verulega miklu máli fyrir ríki sem situr uppi með gríðarlegar skuldbindingar og skuldir vegna bankahrunsins, erfiða stöðu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og að mínu viti ónýtan gjaldmiðil. Það að við gefum til kynna hvert við stefnum, með hverjum við viljum vinna, að við stefnum að því að taka upp nýjan gjaldmiðil, mun efla trú og traust og skilning annarra ríkja og annarra þjóða á því hver vegferð okkar sé. Það eitt og sér hefur pólitískt gildi.

Ef við snúum okkur síðan aðeins betur að stöðunni innan lands þá er það þannig að svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, stærstu atvinnurekenda- og launþegasamtök á Íslandi eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sé skref í rétta átt fyrir Ísland, fyrir efnahagslífið, fyrir atvinnulífið, fyrir okkur öll.

Það er mér nokkurt umhugsunarefni þegar sá flokkur sem lengi vel hefur a.m.k. talið sig vera í forsvari fyrir atvinnulíf á hinum frjálsa markaði og framsækni, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur orðið með þessum hætti svona algjörlega viðskila við það sem ég hélt að væri eða taldi vera hrygglengjuna í flokknum. En svona geta tímarnir breyst og mennirnir með.

Það hefur verið farið yfir það vandlega í umræðunni í dag hvernig skoðanir einstakra hv. þingmanna sjálfstæðismanna hafa breyst á liðnum vikum, mánuðum og missirum. Við vitum öll að niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins var að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Samt er forusta Sjálfstæðisflokksins og þingflokkur hans tilbúinn til að undirbúa umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er reyndar Framsóknarflokkurinn líka sem kemur ekki eins mikið á óvart nema þar virðast menn heldur hafa slegið af kröfunum.

En ég tek undir með þeim sem hafa bent á að það eru í raun mjög gleðileg tíðindi þegar menn eru tilbúnir til að taka þátt í þessari vinnu, vera gerendur í ferlinu, taka þátt í því að mynda hér samstöðu, vonandi þverpólitíska samstöðu um að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Og best væri, við vitum það öll, að sem mest samstaða væri um þá ákvörðun á hinu háa Alþingi. Það verður auðvitað ekkert fram hjá því litið.

Það fallega við það að þessi mikilvæga ákvörðun skuli vera rædd sem stjórnartillaga inni á hinu háa Alþingi er að hér gefst öllum þingmönnum, hverjum einasta hv. þingmanni tækifæri til að ræða málið í þaula, kynna sér þær umsagnir sem berast munu til umfjöllunar í utanríkismálanefnd og taka síðan afstöðu til málsins á grundvelli sannfæringar sinnar. Eins og við vitum öll mun það væntanlega ekki fara eftir flokkslínum hvernig hv. þingmenn greiða atkvæði í því máli. En við sjáum það væntanlega betur þegar þar að kemur.

Sem fullvalda og sjálfstæð þjóð innan Evrópusambandsins, sem fullgildir aðilar eigandi sæti við borðið eins og það er oft nefnt, færist ekki aðeins pólitískt ákvörðunarvald um þau málefni sem mestu varða til okkar sjálfra og svo pólitíska ábyrgð sem því fylgir að vera í slíku samstarfi, heldur færir það einnig ríki eins og Íslandi dagskrárvald innan þessa samstarfs. Þar getum við sett á dagskrá og tekið upp þau málefni sem varða hagsmuni okkar mestu og eru brýnust fyrir Ísland og fengið aðra til að ræða þau með okkur og leita lausna. Það gera öll ríki í slíku samstarfi. Þar höfum við jafnmikla möguleika á því og allir aðrir.

Allt tal um að ekki verði á okkur hlustað gengur einfaldlega þvert á reynslu ríkja og fólks, bæði reynslu okkar af öðru alþjóðasamstarfi og einnig reynslu ríkja innan Evrópusambandsins. Við megum heldur ekki vera hrædd við að láta til okkar taka, við höfum fullt erindi. Við megum ekki láta þessa umræðu sveiflast á milli eiginlega oflætis og minnimáttarkenndar, liggur mér við að segja. Ísland á fullt erindi inn í Evrópusambandið. Við getum þar staðið vörð um þá hagsmuni sem mestu varða fyrir þessa þjóð, fyrir atvinnulíf og efnahagslíf og með samvinnu við aðrar sjálfstæðar og fullvalda þjóðir getum við bæði bætt hag Íslendinga, sett nýjar stoðir undir íslenskt efnahagslíf og í raun hafið þá endurreisn sem við þurfum að hefja strax í dag.