137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns að hún telur að rödd okkar á alþjóðavettvangi skipti miklu máli. Þar er ég alveg sammála henni. En að hún skipti jafnmiklu máli og rödd milljónaþjóða verður manni að umhugsunarefni.

Hvað verður þegar komið er að því að taka ákvarðanir? Er það skoðun hv. þingmanns að rödd okkar og atkvæðavægi okkar skipti jafnmiklu máli og vegi jafnþungt og stærri þjóða? Er það virkilega sá málflutningur sem Samfylkingin ber á borð fyrir íslenska þjóð og fyrir hið háa Alþingi? Snýst þetta ekki allt saman um eitthvað allt annað?

Í kosningabaráttunni var algjörlega ljóst að umræðan um Evrópusambandið snerist um gjaldmiðilinn. Hún snýst um upptöku evrunnar og hv. þingmaður gerði það að umtalsefni sínu og telur að lausn efnahagsvandans, eftir því sem ég skildi hv. þingmann, sé sú að ganga inn í Evrópusambandið.

Málið er hins vegar það að við uppfyllum ekki Maastricht-skilyrðin og getum þess vegna ekki tekið upp evruna fyrr en eftir nokkuð mörg ár. Hvert er plan B hjá Samfylkingunni ef þetta plan gengur ekki eftir? Hvað ef Íslendingar samþykkja ekki að ganga í Evrópusambandið? Er þá einfaldlega engin lausn á efnahagsvanda okkar? Hver er afstaða þingmannsins til þessarar spurningar?