137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:07]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði nú ekki að ræða hér við hv. þm. Pétur H. Blöndal um bankahrunið eða þær hörmungar sem riðið hafa yfir íslensku þjóðina hvort sem það er vegna Icesave-skuldbindinganna eða bankastarfsemi sem átti meira skylt við fjárhættu- og glæfrastarfsemi en venjulega bankastarfsemi. Það getur vel verið að það henti Sjálfstæðisflokknum núna að kenna því um að allt hafi þetta verið hægt vegna þess að við erum aðilar að EES. En ég man ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt þann samning og verið með fullri meðvitund líklega síðastliðin fimmtán ár og fylgst með því hvernig löggjöfin — meðal annars með því að mæta á sérfræðingafund í Brussel eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir bendir á — fylgst með því hvernig löggjöfin hefur breyst.

En við höfum ekki tíma til að fara nánar út í þá sálma hér. Mér þykir þó hv. þm. Pétur H. Blöndal senda Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands heldur kaldar kveðjur héðan úr þingsalnum og gera lítið úr hlutverki þeirra, stærð og mikilvægi í íslensku samfélagi. Við hv. þingmenn skulum ekki stunda það hér að gera lítið úr aðilum vinnumarkaðarins, framlagi þeirra til samfélagsins og framlagi þeirra núna til þess að halda stöðugleika og stuðla að endurreisn efnahagslífsins.

Ég hef aldrei sagt að evran væri handan við hornið. Það getur vel verið að hv. þingmann hafi dreymt það. Mér er fullkunnugt um Maastricht-skilyrðin og hversu langan tíma það gæti tekið Ísland að ná þeim. Það er öllum fullkunnugt um það. En ég spyr hv. þingmann á móti. Hvernig hyggst hann, frú forseti, bjarga (Forseti hringir.) íslensku efnahagslífi frá örmyntinni krónu og gjaldeyrishöftunum?