137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti því að hv. þm. Pétur H. Blöndal komi því til Landssambands íslenskra útgerðarmanna að vera ekki að blanda sér í pólitík frekar en aðrir aðilar á vinnumarkaði. (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt það sama frá forsvarsmönnum útflutningsfyrirtækja og hv. þingmaður er að greina hér frá. Forsvarsmenn útflutningsfyrirtækja kvarta sáran yfir krónunni og segja að það sé ekki nema skammgóður vermir að hafa gengið eins og það er um (Gripið fram í.) þessar mundir. Þeir kvarta sáran undan kostnaðinum sem fylgir því að hafa krónuna bæði til skamms og langs tíma.

Mig langar til að greina hv. þingmanni frá því að á fundi heilbrigðisnefndar í morgun kom fram að Landspítali – háskólasjúkrahús (REÁ: Hann hefur ráðið sér almannatengil.) borgaði á síðasta ári — kostnaður þessa stærsta vinnustaðar á Íslandi vegna íslensku krónunnar, vegna gengismismunar var 2.100 (Forseti hringir.) millj. kr., 2.100 millj. kr. Væntanlega (Forseti hringir.) koma þær beint úr ríkissjóði.