137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að heyra hér á undan orðaskipti hv. þingmanna Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Péturs H. Blöndals um krónuna, sérstaklega þegar maður skoðar þá tillögu sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, vegna þess að eins og formaður Sjálfstæðisflokksins benti á í upphafi umræðunnar í dag er ekki minnst á krónuna í þeirri tillögu frekar en önnur þau atriði sem mæla með Evrópusambandsaðild. Ég vildi bara skjóta þessu að í upphafi í tilefni af orðum hv. þingmanna.

Margt hefur verið sagt og margt fram komið í umræðunni í dag sem hefur verið á köflum fróðleg og skemmtileg. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. En ég tek undir í aðalatriðum ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem fór vel yfir mörg þau sjónarmið sem ég hafði ætlað mér að reifa og ég læt þeirra þá frekar getið með að vísa í þá ræðu í staðinn fyrir að endurtaka þau.

Í upphafi vil ég þó segja og taka undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni sem hafa talað á undan mér að tillagan sem við erum að ræða er ekki góð. Hún er illa ígrunduð og hún er ekki boðleg þinginu. Málið er ekki nægilega undirbúið og alls ekki til þess fallið að ná um það sátt, hvort sem er í þinginu eða í samfélaginu öllu, sátt um þetta mikilvæga og umdeilda mál, og tillagan óháð afstöðu manna til málefnisins verður að segjast gerir ekkert til að leysa það mál.

Það er engin sannfæring í þessari tillögu, það vantar hjartað í hana. Það er enginn sem heldur því fram að okkur vegni betur innan ESB og að innan ESB muni íslensku þjóðinni farnast betur en utan þess. Það er ekkert talað um það. Þessi tillaga er sett fram sem málamiðlun um ákveðið ríkisstjórnarsamstarf. Það var reyndar mjög fróðlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, sem fór mikinn í ræðu áðan, reyna að koma sér undan því að svara og lýsa sjónarmiðum sínum en hann talaði um það núna að það væru tólf ríkisstjórnir. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessu stjórnarsamstarfi.

Ég er sammála hv. þingmanni sem hér situr í salnum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að það væri réttast að leggja þessa tillögu til hliðar og einbeita sér að því að ræða frekar tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem er að öllu leyti, óháð því hvað mönnum finnst um málið, miklu betri tillaga um málsmeðferð.

Það er alveg með ólíkindum að ekki skuli vandað betur til verka með þetta stóra mál og að ekki sé gerð nein tilraun til að ná utan um þau atriði málsins sem eru mikilvæg og reynt að gera þetta þannig úr garði að Alþingi sé sómi að og íslenska þjóðin fái það á tilfinninguna að hún geti með einhverjum hætti tekið afstöðu til þessa mikilvæga máls eftir umfjöllun á Alþingi. Það skortir algjörlega upp á það.

Þessar tillögur hafa verið bornar saman í dag og menn hafa, aðallega samfylkingarmenn, haldið því fram að þær séu nánast samhljóða, það væri hægt að slá þeim saman og ræða þær saman. Það er algjörlega rangt. Það er nefnilega grundvallarmunur á tillögunum eins og þingmenn hafa farið hér í áður. Stærsti munurinn á tillögunum er sá að ekki er búið að taka um það ákvörðun að fara í aðildarviðræður samkvæmt tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna heldur er lögð til málsmeðferð sem nær ákveðinni niðurstöðu. Sett er saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðunum og síðan er lagt til að gerður verði vegvísir sem taki á öllum þessum álitamálum. Að þessu loknu, og við gefum okkur sumarið í þessa vinnu, er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref. Þar er ekki eins og í tillögu stjórnarflokkanna eða stjórnarflokkanna mínus einhverjir, ég er ekki með alveg á hreinu hverjir leggja þessa tillögu fram, ályktað að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn áður en nokkuð er skoðað. Það er verið að biðja okkur þingmenn að veita hæstv. utanríkisráðherra opinn tékka, opið umboð til að fara til Brussel og semja.

Ég er ekki tilbúin í það og því styð ég ekki þessa tillögu. En jafnvel þótt skoðun mín sé sú, og ég er sammála því hagsmunamati sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins komst að, að hagsmunum okkar sem þjóðar sé betur komið utan Evrópusambandsins, styð ég tillögu okkar og er meðflutningsmaður að því máli vegna þess að í landsfundarályktun okkar sjálfstæðismanna segir — ég er með hana hér einhvers staðar — með leyfi forseta:

„Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.“

Við gerum okkur grein fyrir því að við erum í minni hluta, jafnvel þótt við höfum þessa skoðun og landsfundurinn árétti hana, að það gæti komið til þess að meiri hluti þingsins ákveði að fara í viðræður eins og hér er lagt til með tillögunni og þá viljum við passa upp á að málsmeðferðin verði með þeim hætti að Alþingi og okkur sé sómi að.

Í lokaorðum greinargerðar með tillögunni, segir með leyfi forseta:

„Þegar niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.“

Þarna er búið svo um hnútana að niðurstaðan er ekki gefin fyrir fram. Við ætlum að fara í þessa vinnu og við ætlum að tryggja að öll álitamál sem við þurfum að taka tillit til séu rædd fyrir fram en ekki eftir á þegar umboðið er komið. Þar er stór munur á. Með þessari tillögu eru stjórnarandstöðuflokkarnir að gera tilraun til að ná víðtækari sátt um þetta mál og sáttin felst í undirbúningnum og því ferli að Alþingi ákveði næstu skref. Þetta felst í því að við leggjum til að málið verði undirbúið, rætt og afgreitt á Alþingi áður en ákvörðun um aðildarviðræður yrði tekin, þ.e. hvort gengið skuli til viðræðna. Það er nefnilega samráð. Það er ekki samráð þegar fyrst er ákveðið að veita einum ráðherra opið umboð til að ganga til aðildarviðræðna í þeim eina tilgangi að því er virðist samkvæmt tillögunni sjálfri að athuga hvort íslenska þjóðin hafni henni eða samþykki. Það er dálítið kostulegt að lesa tillöguna, það er fyrst talað um að íslenska þjóðin geti hafnað en svo er sagt á að hún geti samþykkt. Það hefur verið gert mikið úr því hér að vinstri grænir hafi ekki fengið að koma neinu að, ég held að þarna sé fingrafar þeirra á tillögunni að orðið hafna kemur á undan að samþykkja.

Það er nefnilega ekki nóg að tala um sátt og samráð á tyllidögum eins og þessi ríkisstjórn virðist gera og hún sýnir það í verki með önnur mál í þinginu að það er ekki trúverðugt og alls ekki þannig að ég sé tilbúin að gefa ríkisstjórninni eða öðrum flokknum þennan opna tékka í aðildarviðræðum.

Við getum tekið mjög nærtækt dæmi um þetta samráðsleysi. Við ræddum í gær af hverju ekki færi fram áður boðuð utandagskrárumræða sem Framsóknarflokkurinn hafði beðið um um hag heimilanna. Forsætisráðherra hafði fyrir sitt leyti veitt leyfi fyrir þessari umræðu og samráð var haft við forsætisráðuneytið um þennan tíma. Síðan komu með engum fyrirvara skilaboð um að umræðan hafi verið slegin af. Það var ekkert samráð, umræðan var bara slegin af. Þegar við fórum að inna eftir því hverju sætti varð fátt um svör en þó kom hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar upp í umræðunni og sagði að umræðan hefði verið slegin af vegna þess að hæstv. forsætisráðherra væri upptekinn í samráði, ekki við þingið eða stjórnarandstöðuna heldur við aðila vinnumarkaðarins við gerð svokallaðs stöðugleikasáttmála, sem er líka nýtt og fínt orð Samfylkingarinnar. Allt í lagi, þarna var forsætisráðherra upptekin í samráði. Í gærkvöldi var svo annar samráðsfundur, tók ég eftir í fréttum, þar voru stjórnarflokkarnir í Þjóðminjasafninu með samráð um niðurskurð og tillögur í ríkisfjármálum. Þar er greinilega fínt samráð, en hvar er hið margumtalaða samráð við Alþingi, við stjórnarandstöðuna? Við höfum ekki fengið þessar tillögur, við höfum ekki fengið að sjá þær. Það er fólk úti í bæ, aðilar vinnumarkaðarins, sem veit hverjar tillögur ríkisstjórnarinnar eru um niðurskurð í ríkisfjármálum á meðan við þingmenn, sem kallað er statt og stöðugt eftir að eigum nú að leggja niður skotgrafahernað eða koma okkur upp úr skotgröfunum, eigum að leggjast á árarnar með ríkisstjórninni vegna þess að nú eru erfiðir tímar. Ég tek undir það, við eigum öll að hjálpast að, en það er ekki nóg að koma alltaf eftir á með tillögurnar þegar búið er að kynna þær út um víðan völl og segja svo: Nú ber ykkur í stjórnarandstöðunni skylda til að vera stór og þroskuð og hætta að karpa, hætta að sýna aðhald og kaupa strax það sem við erum að segja. Ég kaupi þetta ekki, ég kaupi ekki að þetta sé samráð. Samráð felst í því að tala fyrst og ákveða svo. Það er ekki það sem við höfum heyrt hér.

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að heyra í þingmönnum Vinstri grænna í þessari umræðu og ég verð að taka undir með nokkrum þeirra. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir flutti hér mjög athyglisverða ræðu þar sem hún var mjög hreinskilin með það að hún væri algjörlega andvíg Evrópusambandsaðild og mundi ekki styðja það og hefði gert fyrirvara, ef ég tók rétt eftir, við ríkisstjórnarmyndunina út af þessu. Það var mjög athyglisvert. Og ég var alveg sammála hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni þegar hann sagði að vandi heimilanna, vandi Íslands verði einungis leystur á Íslandi. Hann sagði líka að vandinn væri brýnn og við mættum ekki eyða tíma í önnur minna mikilvæg mál á meðan við værum að takast á við þennan vanda. Ég tek undir þetta með hæstv. fjármálaráðherra.

Þess vegna segi ég: Hættum að karpa um þetta mál. Ég legg til að ríkisstjórnin dragi tillögu sína til baka og sameinist um tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem hefur miklu betri málsmeðferð í för með sér. (Fél.- og trmrh.: Er þetta samráð?) Þetta er samráð vegna þess að samráðið er eftir. (Gripið fram í: … afgreiða?) Nei, samráðið er eftir. Við erum að leggja þetta til til að spara tíma m.a. (Gripið fram í.) Nei, þetta er ekki það. Við skulum koma þessu í þennan farveg þannig að þingið verði starfhæft. Ef svo er eins og sagan segir að það eigi að klára þetta fyrir júnílok. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson bar á móti því að það væru einhverjar fyrirskipanir um það en samt fyrir mikla tilviljun rennur tímaplan hans í utanríkismálanefnd út 25. júní. Hvernig getur hann verið viss um að þá sé allt samráð búið? Við skulum ekki karpa um þetta, samþykkjum tillögu okkar. Þá höfum við sumarið til að ræða þessi mál og getum einbeitt okkur að því sem máli skiptir núna á þinginu — að koma bönkunum í gang.

Ég var á fundi í hv. viðskiptanefnd í morgun. Það var ekki bjart fram undan í þeim efnum. Við þurfum að einbeita okkur að því að koma bönkunum af stað, koma fyrirtækjunum, atvinnulífinu í gang, einbeita okkur að því sem máli skiptir. Setjum þetta í þann farveg að það taki ekki tíma frá því sem skiptir máli og taki tíma frá því (Forseti hringir.) sem við getum ekki vikið okkur undan að gera og gera strax.