137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:27]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hnaut um það í ágætri ræðu hv. þingmanns að hún kallaði eftir samráði. Hún kallaði eftir að leitað væri samráðs um málið. Samráðið sem hún býður hins vegar upp á er að fresta ákvörðun í málinu enn einn ganginn þegar ljóst er að atvinnulífið í landinu hefur brýna þörf fyrir skýra sýn og við vitum að við höfum ekki gjaldmiðil sem við getum byggt efnahagslega endurreisn á. Sem sagt frestun á máli þar sem við vitum að brýnir hagsmunir eru af tafarlausum ákvörðunum. Þetta er auðvitað ekki samráð. Þetta þýðir náttúrlega að við eigum enn einn ganginn að nálgast Evrópumálin á forsendum tafaherdeildarinnar í Sjálfstæðisflokknum, þess arms Sjálfstæðisflokksins sem aldrei vill koma að þessu verki og vill ekki vinna þetta verk og leitar að hverri útgönguleið og hverri leið til undanbragða til að komast hjá því að ræða Evrópumálin efnislega.

Við þekkjum alveg vegferðina hingað til og við vitum við hverju er að búast. Og það er mjög athyglisvert að í þeirri tillögu sem nú er lögð fram af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, virðist einmitt þessi armur í Sjálfstæðisflokknum hafa fullan sigur ekki bara yfir öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins heldur líka yfir Framsóknarflokknum, því að tillagan felur það eitt í sér að tefja málið, búa til nýjan umræðufarveg og ákveða seinna hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Það getur auðvitað aldrei verið svar við tillögu sem hér lögð fram um að sótt verði um aðild strax.

Þeirri spurningu verður Sjálfstæðisflokkurinn náttúrlega einhvern tímann að fara að svara hvers vegna hann er á móti því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu.