137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að heyra hæstv. félagsmálaráðherra tala í hæðnistón um umræðufarveg, enn einn umræðufarveginn. Mér verður orða vant. Umræðufarvegur innan umræðustjórnmálaflokksins Samfylkingarinnar hlýtur að vera eitthvað sem ætti að vera jákvætt.

Auðvitað er ekki verið að leggja til að fresta einhverju, það er verið að leggja til að málsmeðferðin verði bætt. Það er ekki boðlegt, hæstv. forseti, að þingið veiti framkvæmdarvaldinu og þar að auki í því tilviki að það er ekki einu sinni samstíga, það er ekki boðlegt að framkvæmdarvaldið, ósamstíga eins og það er, fái opinn tékka til samningaviðræðna við Evrópusambandið þegar ekkert er skilgreint í hverju það samningsumboð á að felast. Það er gefin einhver tímasetning um júní segir sagan. Og við það hvernig hæstv. ráðherra bregst við tillögu okkar þá rennur mér í grun að sú saga sé rétt. Ég ætti kannski að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé satt að það eigi að ljúka þessu máli fyrir júnílok til að koma því inn í Evrópusambandið. Vegna þess að tillaga okkar sem hann kallar umræðufarveg gerir ráð fyrir að málinu verði lokið með niðurstöðu til ákvörðunar á Alþingi í seinasta lagi 31. ágúst. Það er nú öll töfin sem tafaherdeildin, sem hann nefnir svo smekklega, leggur til.