137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Evrópumálin hafa nú verið rædd mjög lengi á Íslandi og það er kannski ástæða til þess að vekja athygli á því að upp úr 1960 veltu menn því mjög vandlega fyrir sér hvort skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að vel yfirlögðu ráði varð niðurstaðan sú að það væri ekki skynsamlegt. Síðan hafa málin þróast með ýmsum hætti eins og allir vita en umræðan um Evrópumálin og sérstaklega tengsl okkar við Evrópusambandið hafa staðið mjög stríð alveg frá því að við gerðum hinn góða EES-samning. Þá voru umræðurnar mjög harðar en reynslan hefur sýnt okkur að það var skynsamleg ákvörðun á þeim tíma. Samningurinn hefur dugað og reynst okkur vel. Hann er ekki úreltur eins og margir hafa látið orð falla um, m.a. úr ræðustóli Alþingis. Þvert á móti er þetta lifandi og sívírkur samningur sem hefur komið okkur mjög að notum.

Ástæðan fyrir því að þessi umræða kviknar nú af meiri þrótti en áður er mjög einföld, við erum í vandræðum með gjaldmiðil okkar. Það hrun sem varð hér í efnahagsmálum sl. haust gerði það að verkum að menn fóru að velta fyrir sér hvort það gæti verið lausn á þeim vanda að ganga inn í Evrópusambandið með það í huga að taka upp evruna. Það er drifkrafturinn á bak við þá umræðu sem nú á sér stað. Það er ekkert annað sem hefur knúð á um að þessi umræða ætti sér stað vegna þess að við höfum þennan góða EES-samning og þurfum í raun og veru ekki að sækja nokkurn skapaðan hlut til Evrópusambandsins í þeim skilningi. Auk þess er alveg ljóst mál að í mjög veigamiklum atriðum mundi hagur okkar og ýmissa atvinnugreina okkar versna við aðild að Evrópusambandinu.

Á undanförnum árum hafa þessi mál verið rædd mjög mikið og menn hafa reynt að kafa ofan í ýmsa efnisþætti Evrópumálanna. Ýmsir hlutir eru okkur miklu betur ljósir nú en áður. Við vitum í raun og veru hver aðalatriðin eru, þau eru alveg skýr. Það er því mikill misskilningur sem stundum er haldið á lofti, að til þess að vita hvað er í boði þurfi menn að láta reyna á aðildarumsókn. Það er ekki rétt. Við vitum í raun og veru hverjir megindrættirnir eru. Það sem við þurfum hins vegar að átta okkur er hvernig við viljum setja þau mál sem við setjum í forgang inn í tiltekið samhengi og það er verkefnið sem fram undan er. Það verður ekki leyst með því að ganga til skilyrðislítilla aðildarviðræðna eins og hér er lagt til, það verður eingöngu gert með því að hafa eðlilegt verklag í þessum efnum.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru ekki neitt áhlaupsverk. Við þurfum að leggja það algjörlega niður fyrir okkur hverjir eru okkar mikilvægustu hagsmunir og það verður ekki gert í einhverjum símskeytastíl eins og gert er í þessari þingsályktunartillögu. Það verðum við að gera með miklu vandaðri hætti. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir hvernig þessi mál ríma við það sem við vitum nú þegar um stöðu Evrópusambandsins og mögulega stöðu okkar innan Evrópusambandsins. Þess vegna er það alveg augljóst mál að það verklag sem hæstv. ríkisstjórn — nei, afsakið, nú varð mér á mismæli, það er ekki hæstv. ríkisstjórn — ríkisstjórnarhlutinn hefur ákveðið að fara í er auðvitað algjörlega óviðunandi. (Gripið fram í.)

Ríkisstjórnarhlutinn sem stendur að þessu máli leggur það til að við byrjum á því að ákveða að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og þegar það hefur verið ákveðið förum við í undirbúningsvinnuna. Það er mjög sérkennilegt verklag. Menn nálgast þessi mál algerlega í öfugri röð. Tillagan gengur sem sagt út á að slá því föstu að fara í viðræður og reyna síðan að átta okkur á því hvort mikilvægustu hagsmunir okkar geti rímað við mögulega aðild.

Við sjáum líka að þetta er hrærigrautur, tilraun til þess að ná saman mjög ólíkum sjónarmiðum sem að baki þessari tillögu liggja og gleggst kemur það fram í þeirri makalausu málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar …“

Það er eins og þegar maður les auglýsingar um sölu á bílskrjóðum þar sem stendur: „Sá sem selur áskilur sér rétt til að taka tilboði eða hafna þeim öllum.“ Þannig ganga menn ekki til alvöruviðræðna um kannski eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Þetta er ekki eins og að selja bílskrjóð. Þegar menn ganga til slíkra viðræðna er það gert af fullum heilindum og fullri alvöru og þá á að liggja fyrir hverjir þessir málsaðilar eru. Það var ekki einu sinni skýrt, það þurfti að skýra það í umræðunni hér hvað hugtakið „málsaðilar“ þýðir. Er það ekki nokkuð ljóst mál að málsaðilar í þessu sambandi eru þeir sem bera ábyrgð á því að reyna að gera samninginn?

Það kæmi mér mikið á óvart ef Evrópusambandið tæki gott og gilt plagg sem byggist m.a. á þessari undarlegu málsgrein þegar það liggur ekki einu sinni almennilega fyrir við hvern er verið að semja. Er það ekki augljóst mál að sá sem gerir samninginn ætlast til þess að gagnaðilinn standi við samninginn, beri hann upp, fylgi honum eftir og reyni að fá hann samþykktan? Þeir a.m.k. sem staðið hafa í verkalýðsbaráttu vita að það skiptir öllu máli til þess að hafa trúverðugleika í samningagerð að sá sem gerir og undirritar samninginn standi að honum, vilji fylgja honum eftir og leggi allt sitt undir til þess að hann verði samþykktur. (Gripið fram í.)

Þess vegna liggur það ljóst fyrir, virðulegi forseti, að menn ganga til þessa leiks með hálfum huga, ekki síst Vinstri grænir, og er það mjög skiljanlegt vegna þess að við vitum að Vinstri grænir eru á móti því að ganga í Evrópusambandið. Um það hafa þeir margoft ályktað og þetta plagg er bara tilraun til þess að brúa hið óbrúanlega bil, það er ekkert flóknara en það. Samfylkingin lagði á það ofuráherslu í lok kosningabaráttunnar að það kæmi ekki til greina að mynda ríkisstjórn nema hún mundi sjá til þess að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Það vildu Vinstri grænir ekki. Þess vegna var hnoðast á orðalaginu vikum saman þangað til menn fundu eitthvað sem þeir gátu orðið sammála um, sumir hverjir, annars hefði þessi ríkisstjórn ekki verið mynduð. Það var aðgöngumiðinn að ríkisstjórninni.

Ég minni á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft mjög eindregna afstöðu varðandi Evrópusambandið. Ég sat á sínum tíma í nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna, sem þá sátu á Alþingi, sem fór yfir Evrópumálin. Vinstri grænir skrifuðu undir það álit með okkur sjálfstæðismönnum en skiluðu síðan séráliti vegna þess að þeir töldu okkur væntanlega ekki hafa gengið nægilega hart fram í Evrópusambandsandstöðunni. Þeir gengu í raun svo langt að í séráliti Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Ragnars Arnalds, sem var hinn fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, er sagt að skynsamlegast væri að þróa EES-samninginn frá því sem hann er núna í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu. Með öðrum orðum, þau veltu því ekki fyrir sér hvort hugsa ætti um Evrópusambandsaðild, hvað þá að sækja um Evrópusambandsaðild. Hugmyndir þeirra gengu út á að fara alveg í þveröfuga átt.

Nú hefur það gerst á þessum vordögum að hluti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ákveðið að kúvenda, snúa við 180°, sigla í þveröfuga átt. Þegar hin opinbera stefna og hið opinbera álit flokksins eru að reyna eigi að stefna út úr EES-samningnum inn í tvíhliða samninga, sem er allt annað mál, segir flokkurinn nú á vordögum að það sé þá betra að reyna að sækja um aðild núna án nokkurra skuldbindinga, eftir því sem mér sýnist.

Ég er ekki undrandi á því að menn verði órólegir þegar þessi mál eru rædd. Það er auðvitað ákveðið feimnismál þegar svona er komið. En það verður að hafa það, þetta er orðið opinbert mál, það liggur fyrir.

Það er eðlilegast þegar verið er að ræða um Evrópusambandsmálin að þau séu rædd og að fjallað sé um þau í eðlilegri röð og í rökréttu samhengi alveg eins og tillaga okkar og Framsóknarflokksins gengur út á. Þar er talað um að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands og vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn. Hér var talað um að það væri einhver tafarpólitík. Er það tafarpólitík að reyna að vinna þessi mál efnislega, eitt stærsta málið sem er viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar og okkar hér í dag, vegna þess að málið er hér á dagskrá? Er það tafarpólitík að reyna að vinna málið þannig að við gerum okkur nákvæmlega grein fyrir því hverjir okkar helstu hagsmunir eru og setja þá í samhengi við þá þekkingu sem við höfum á Evrópusambandsmálunum, sem er mikil, áður en við tökum afstöðu til þess hvort það sé ómaksins vert að leggja upp í þá miklu vegferð að ganga til samninga við Evrópusambandið? Auðvitað er það ekki tafarpólitík, það er skynsamleg, efnisleg og heiðarleg pólitík sem miðar að því að reyna að vinna þetta mikilvæga mál þannig að hægt sé að taka um það upplýsta, samviskusamlega ákvörðun á réttum tíma.

Það hefur margt verið gert til þess að reyna að skýra þessi mál. Ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma átti til að mynda fundi bæði með framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála Evrópusambandsins, Joe Borg, og framkvæmdastjóra landbúnaðarmála, Mariann Fischer Boel, til þess að fara yfir þessi mál. Við gerum okkur auðvitað alveg grein fyrir helstu efnisatriðunum um þau mál eftir þá fundi og eftir allt það sem skrifað og skrafað hefur verið. Að mínu frumkvæði á sínum tíma fór skrifstofustjóri úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Stefán Ásmundsson, til starfa á skrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála vegna þess að eftir því var kallað af hálfu Evrópusambandsins. Það hafði áhuga á því að leita eftir þeirri sérþekkingu sem við hefðum í sjávarútvegsmálum.

Hér hefur mikið verið talað um að nú séu að renna upp góðir tímar í Evrópusambandinu í sjávarútvegsmálum. Mér er kunnugt um að á skrifstofu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum er mikill vilji til þess að reyna að koma einhverju lagi á þessa sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins en Einar Oddur Kristjánsson heitinn sagði einhvern tíma að engar tölur væri að marka í þeim plöggum nema blaðsíðutölin á skjölunum. Auðvitað veit ég að það er fullur vilji af hálfu forustumanna Evrópusambandsins í þessum málaflokki að koma þessum málum í betra horf en það liggur hins vegar fyrir að það eru mjög ólíkir hagsmunir innan Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Þó að framkvæmdastjórinn vilji vel og reyni sitt besta hefur hann drösul að draga, það eru ólíkir hagsmunir innan sambandsins. Við vitum að það eru ákveðnir hlutir þar sem eru ófrávíkjanlegir í sambandi við sjávarútvegsmálin svo sem að löggjafarvaldið er hjá Evrópusambandinu, hámarksaflinn er ákveðinn af ráðherraráðinu, hlutfallslegi stöðugleikinn er ekki nema fugl í skógi og allt tal um að við fáum sérstök stjórnunarsvæði er margoft búið að afgreiða út af borðinu, svo mikið veit ég.

Þetta eru hlutir sem við áttum okkur á og sem við vitum. Þetta eru hlutir sem við þurfum að setja í samhengi með skipulegum hætti núna og átta okkur á því hvort það sé samrýmanlegt fyrir okkur á grundvelli þessara hagsmuna að ganga til samningaviðræðna við Evrópusambandið. Það er það sem tillaga okkar gengur út á og það er það sem greinir hana frá hinni vanhugsuðu tillögu ríkisstjórnarhlutans sem stendur að þessari tillögu.

Sama er að segja um landbúnaðarmálin. Búið er að fara rækilega yfir þau, ég minni t.d. á skýrslu fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um Evrópumál, sem er mjög gott grundvallarplagg fyrir þessi mál. Þar er farið rækilega yfir þetta. Þar er sagt að tekjur sauðfjárbænda geti orðið svipaðar og núna en þá gleyma menn því að að kjötmarkaðurinn yrði augljóslega í uppnámi vegna þess að tollarnir falla niður — það er grundvallaratriði — frá fyrsta degi. Um leið og samningurinn við okkur yrði samþykktur mundi tollverndin falla burtu gagnvart Evrópusambandinu. Sama er varðandi mjólkina. Í þessari skýrslu segir einfaldlega: Tekjur bænda mundu lækka um helming. Tekjur í nautakjötsframleiðslu mundu lækka verulega. Svín, kjúklingar og egg — sú framleiðsla er nánast slegin af. Sagt er að íslenskur matvælaiðnaður muni eiga mjög undir högg að sækja enda má ekki gleyma því að það eru sögð vera ein mestu og helstu rökin fyrir því að ganga í Evrópusambandið, að lækka matarverð í landinu. Það gerist þá væntanlega ekki nema með því að verð til bænda lækkaði alveg eins og við vitum út frá reynslunni í Finnlandi þar sem verð til bænda lækkaði miklu meira en það gerði til neytenda af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja.

Virðulegi forseti. Kvartað var undan því áðan í þessari umræðu að það skorti efnislega umræðu um Evrópusambandið. Ég kaus þess vegna að eyða nokkrum mínútum í þann þátt sem ég hef kynnt mér nokkuð. Ég segi það hispurslaust að það er enginn vafi í mínum huga að þessar atvinnugreinar yrðu verr settar, værum við innan Evrópusambandsins en utan þess. Hitt getur vel verið að menn telji að einhverjir aðrir hagsmunir séu svo veigamiklir að ástæða sé til að láta reyna á Evrópusambandsaðild. Þá hef ég sagt: Þá skulum við bara skoða þetta í réttu samhengi og þegar við erum búin að láta þá vinnu fara fram skulum við setja þá þekkingu, þá vinnu og þá yfirsýn sem við höfum í eðlilegt samhengi þannig að við getum tekið afstöðu til málsins. Menn eiga ekki að vaða út í aðildarumsókn til Evrópusambandsins með það í huga að koma síðan með einhver skilyrði sem enginn veit á þessari stundu hver eiga að vera. Það er ekki heiðarlegt gagnvart okkur sjálfum, það er ekki heiðarlegt gagnvart Evrópusambandinu og það er ekki líklegt til þess að skila okkur góðum árangri.