137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get að öllu leyti tekið undir ræðu hv. þingmanns og greiningu hans á því að aðild að Evrópusambandinu sé í reynd einangrunarstefna og að Evrópusambandið sé að þróast í átt til ríkis og ég hef svo sem sagt það líka sjálfur. Mér finnst mjög ánægjulegt — þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég heyri það, frú forseti, að hér sé talað til framtíðar um stöðu Evrópusambandsins.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann af því að svo vill til að sú tillaga sem við ræðum hér, aðildarumsókn að Evrópusambandinu, er flutt af ríkisstjórninni og þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Ríkisstjórnin flytur þessa tillögu og hv. þingmaður styður ríkisstjórnina, hann er í rauninni að stuðla að því að ríkisstjórnin leggi fram aðildarumsókn um Evrópusambandið þó að hann sé svona hjartanlega á móti því. Hvernig ætlar hann að réttlæta það fyrir kjósendum sínum að Ísland sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu með stuðningi hans því að hann styður ríkisstjórnina? Eða er hann horfinn frá stuðningi við ríkisstjórnina og mundi hann greiða vantrausti á ríkisstjórnina atkvæði hér og nú í kjölfar þessarar tillögu til þingsályktunar? Ríkisstjórnin hefur ekki nema 34 þingmenn í meiri hluta og ekki þarf nema tvo eða þrjá af þingmönnum, stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar til að greiða atkvæði með vantrausti á ríkisstjórnina og þá er hún fallin og þar með er þetta vandamál, sem hv. þingmaður er svo eindregið á móti, horfið. En hann er í rauninni að stuðla að því að Ísland sæki um aðild og það kann að verða til þess þegar fólk fer að lofa þetta, töfrabrögðin og fagurgalinn og allt þetta og hótanirnar, að þetta verði samþykkt (Forseti hringir.) þegar það kemur frá Evrópusambandinu.