137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:06]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er stór dagur. Í dag má segja að formlega hefjist ferli sem vonandi mun innan fárra missira leiða til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að taka um það upplýsta ákvörðun hvort hún vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir þinginu gerir ráð fyrir því að Alþingi samþykki að fela ríkisstjórninni að senda inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu strax í sumar og að aðildarviðræður geti hafist síðar á þessu ári að loknu ítarlegu samráðsferli um samningsmarkmið Íslendinga. Þetta er stór dagur fyrir þjóðina en þetta er líka stór dagur fyrir Alþingi. Þessi stofnun hefur legið undir ámæli árum og jafnvel áratugum saman fyrir að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið í stað þess að vera fullburða og sjálfstæð löggjafarsamkoma sem hefur forræði í mikilvægri lagasetningu jafnframt því að veita framkvæmdarvaldinu málefnalegt og faglegt aðhald. Með þeirri málsmeðferð sem hér er lögð til er Alþingi Íslendinga fengið í hendur mikilvægt vald til að koma á rekspöl máli sem hefur verið í þjóðfélagsumræðunni í tæpan aldarfjórðung og hefur kallað fram heitar tilfinningar með og á móti. Stuðningsmenn hafa kallað ESB-aðild mesta þjóðþrifamál samtímans en andstæðingar látið í veðri vaka að aðild fylgdi afsal ekki bara fullveldis heldur hvorki meira né minna en yfirráða yfir mikilvægustu auðlindum þjóðarinnar.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar, og í fullu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar allt frá árinu 2005, að samningsmarkmið skuli móta í samráði allra flokka og helstu hagsmunaaðila í samfélaginu og það ferli mun væntanlega hefjast strax í næstu viku. Ég mun því ekki eyða miklum tíma í að fjölyrða um samningsmarkmiðin að sinni en tel einboðið að krafan um forræði Íslendinga yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, hvort sem er í sjó eða landi, hljóti að vera helsta samningsmarkmið okkar í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég kvíði ekki niðurstöðu þeirra viðræðna og tel reyndar að það liggi í augum uppi að það væru ekki 27 ríki í Evrópusambandinu ef gjaldið sem þau greiddu fyrir aðild að því væri að fórna yfirráðum yfir helstu náttúruauðlindum sínum.

Á sama hátt tel ég umræðuna um fullveldisafsal á nokkrum villigötum því að þó að það sé vissulega rétt að ESB-aðild felur í sér ákveðið valdaafsal er að mörgu leyti nákvæmara að tala þar um afsal á hluta ríkisvalds en afsal á fullveldi. Fullveldi er stórt orð sem í huga flestra kallar fram tilfinningar um sjálfstæði og sjálfsforræði í málum sem varða þjóðarhag. Ég tel að fáir komist langt með þá röksemdafærslu að þjóðir á borð við Þýskaland, Frakkland eða Bretland hafi fórnað sjálfstæði sínu með aðild að Evrópusambandinu nú eða frændur okkar Svíar, Finnar og Danir. Hins vegar tel ég að halda megi því fram að við Íslendingar höfum á undanförnum 15 árum með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu afsalað okkur umtalsverðum hluta af sjálfsforræði okkar með því að lögleiða 4 þúsund gerðir Evrópusambandsins án þess að hafa formlega aðkomu að innihaldi þeirra gerða.

Virðulegi forseti. Að þessum orðum sögðum vil ég undirstrika að sú tillaga sem hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir í dag kallar ekki á það að þingheimur skipi sér í fylkingar með og á móti aðild að Evrópusambandinu. Þvert á móti er hlutverk Alþingis í þessu máli fyrst og fremst að setja af stað ferli sem í fyllingu tímans gefi þjóðinni tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um það hvort hagsmunum hennar er betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Í því felst krafa um víðtækt samráð allra stjórnmálaflokka á þinginu en einnig hagsmunaaðila, launþegahreyfingar, atvinnurekenda, bænda, sjómanna, útvegsmanna, neytenda, fræðimanna, landsbyggðar og höfuðborgar. Ef þessi þingsályktunartillaga um aðildarumsókn fær meirihlutastuðning í þinginu hefst langur ferill sem kallar á mikla og vandaða vinnu jafnt á Alþingi, í Stjórnarráðinu, meðal hagsmunasamtaka, í háskólasamfélaginu og í opinberri umræðu almennings og fjölmiðla. Allir þessir aðilar þurfa að koma að því mikilvæga verki sem er að skilgreina og útfæra hver eigi að vera samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þá skiptir engu minna máli að hlusta á og taka tillit til röksemda þeirra sem eru andvígir inngöngu í sambandið en hinna sem eru henni fylgjandi. Hver sem afstaða okkar er til aðildar að Evrópusambandinu erum við öll Íslendingar sem berum hag þjóðarinnar fyrir brjósti jafnt nú og í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Þjóðin ber takmarkað traust til Alþingis samkvæmt nýlegum viðhorfskönnunum. Einungis 20% þjóðarinnar báru mikið traust til þessarar stofnunar í könnun sem fyrirtækið Markaðs- og miðlarannsóknir birti í gær og tekin var fyrr í þessum mánuði. Traustið hefur að vísu heldur aukist frá því í desember þegar einungis 13% báru mikið traust til Alþingis en þetta er engu að síður falleinkunn hvernig sem á hana er litið. Það er á ábyrgð okkar allra, hvar í flokki sem við stöndum, og á að vera sameiginlegt metnaðarmál okkar allra að hefja Alþingi til vegs og virðingar á ný. Það gerum við með því að sýna í verki að við séum traustsins verð. Það gerum við með málefnalegri umræðu hér í þinginu, með því að hefja okkur upp úr skotgröfum hefðbundinna flokkastjórnmála, með því að setja hagsmuni þjóðarinnar í fyrsta sæti og með því að fylgja sannfæringu okkar eins og stjórnarskráin boðar okkur. Ég leyfi mér að láta í ljós þá von að þingmenn í öllum flokkum hafi þetta hugfast við meðferð og afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu.

Sú tillaga sem hér er til umræðu er söguleg því að hún byggir á sátt sem er að verða til í samfélaginu og meðal stjórnmálaflokkanna um meðferð máls sem hefur klofið þjóðina í andstæðar fylkingar. Sáttin felst í því að jafnt fylgjendur sem andstæðingar aðildar eru sammála um að málið eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessari sátt felast mikilvæg skilaboð til stjórnmálaflokkanna um að bera virðingu fyrir því að málið er ekki aðeins örlagaríkt fyrir þjóðina, það er í eðli sínu einstakt því að það verður ekki þingið heldur þjóðin sem mun eiga síðasta orðið í þessu máli. Hlutverk okkar á þinginu er að tryggja að þjóðin hafi nægilegar upplýsingar til að geta tekið rökstudda afstöðu til málsins. Sérstaklega er málið prófsteinn á það hvort flokkarnir eru þess umkomnir að sýna í verki að þeir treysti þjóð sinni til að taka upplýsta ákvörðun.

Í dag eru Evrópumálin loksins komin í skýran farveg eftir þöggun, hunsun og tafir á hinu pólitíska sviði um árabil, og ég fagna því að allir flokkar skuli nú tilbúnir að setja þetta mál á dagskrá með afgerandi hætti. Það er mikið framfaraskref og vekur vonir um að nú séu að hefjast nýir tíma í íslenskum stjórnmálum þar sem hversdagslegar pólitískar skylmingar víki fyrir vandaðri málsmeðferð a.m.k. þegar brýnir þjóðarhagsmunir eru í húfi.

Virðulegi forseti. Þetta er sögulegur dagur fyrir Alþingi, fyrir þjóðina, fyrir lýðræðið.