137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er um stórt mál að ræða, hvort Íslendingar eigi að leita eftir því að fá samninga upp á borðið hjá Evrópusambandinu. Ég tel að svo sé. Við höfum hér á þessu ágæta landi okkar rætt um þetta mál um langt árabil og ég tel brýnt að það fáist niðurstaða í það..

Niðurstaða í málið fæst ekki með öðrum hætti en að við leitum samninga, fáum samninginn upp á borðið. Og sá sem hér talar er ekki slíkur Evrópusinni að honum sé sama hvernig sá samningur lítur út. Ég held að það sé enginn svo mikill Evrópusinni hér á Íslandi að honum sé sama um hvernig samningurinn lítur út. En þennan samning fáum við ekki að sjá fyrr en við förum í samningaviðræður. Það er lykilatriði í þessu máli.

Þá ber annað að hafa í huga, við þurfum að undirbúa mjög rækilega það ferli sem fram undan er svo við komum ekki tómhent til samninga við Evrópusambandið þegar og ef þetta mál fer með þeim hætti. Ég vona að meiri hluti þings vilji að við leggjum inn aðild að Evrópusambandinu og leitum samninga við það um það samningsmarkmið sem við erum sátt um. Sú sátt verður að vera breið. Hún þarf að byggja á sátt alls atvinnulífsins til sjávar og sveita. Hún þarf að byggja á sátt iðnaðarins svo og allra annarra atvinnugreina hér á landi en ég vil líka nefna að hún þarf að byggja á sátt allra byggða í landinu.

Hugsanleg Evrópusambandsaðild er að mínu viti byggðaaðgerð. Reykjavíkurvaldið hefur ekki leikið byggðirnar í landinu neitt sérstaklega vel. Það hefur verið upptekið af því að halda fram einhverri mestu byggðaaðgerð Íslandssögunnar sem er stjórnsýslan á Reykjavíkursvæðinu og hún hefur að mörgu leyti skilið eftir byggðirnar úti um land sem afgangsstærð í íslensku samfélagi. Það er mjög miður.

Ég tala fyrir sókn í byggðamálum. Ég tala fyrir sókn í atvinnumálum úti á landi með flestum þeim ráðum sem þar duga og ég tel að það séu sóknarfæri falin í því fyrir byggðirnar úti á landi að leita eftir samningi við Evrópusambandið.

Það hefur ekki falist nein sérstök sókn fyrir byggðasvæðin úti á landi að láta ríkisvaldinu í Reykjavík eftir málefni þess. Við sjáum það ekki einvörðugu í atvinnuleysistölum úti á landi. Við sjáum það líka í öðrum tölum sem eru miklu merkilegri, það eru íbúatölurnar. Íbúatölurnar (Forseti hringir.) segja okkur kannski fyrst og fremst hvernig landsbyggðin hefur verið leikin á síðustu árum (Forseti hringir.) en ég tel að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þá möguleika sem landsbyggðin sérstaklega hefur þegar kemur að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti spyr hv. þingmann hvort hann sé með lengra mál eða hvort hann ætli að fresta ræðu sinni þar sem forseti hyggst fresta þessari umræðu nú og nýr fundur verður boðaður. Síðan heldur umræðan áfram. Vill hv. þingmaður fresta ræðu sinni eða ljúka henni?)

Frú forseti. Ég skal gera hlé á ræðu minni. Ég get svo sem haldið áfram lengi kvölds. [Hlátur í þingsal.] Ég var byrjaður á að ræða þann þátt sem lýtur að landsbyggðinni og mér er hún mjög kær. En ef ég fæ að koma aftur að þeim lið ræðunnar seinna meir skal ég verða við ósk frú forseta hér og nú.

(Forseti (ÁRJ): Forseti er afar þakklát hv. þingmanni fyrir að vilja hliðra til varðandi fundarfyrirkomulagið.)