137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[18:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við gerum okkur öll grein fyrir mikilvægi þess að skapa tekjur fyrir ríkið. En í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra gengst þó við því að ekki sé gott að þurfa að fara út í þessar hækkanir vegna þeirra áhrifa sem þær hafa hefði verið æskilegt að ráðherrann hefði fært sterkari rök fyrir því hvers vegna hann gerir þetta með þessum hætti og hvernig þetta verði nýtt. Þar hefðu líklega gagnast þær upplýsingar sem ráðherrann kynnti fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna í Þjóðminjasafninu en hefur ekki enn séð sér fært að setja Alþingi inn í. Það hefði líklega gefið okkur betri forsendur til að fara út í umræðu um þetta mál og svo þær skattahækkanir, þær mörgu skattahækkanir, sem ráðherrann sagði okkur að von væri á.

Jafnframt hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki hefði verið æskilegt, þegar útlit var fyrir, að mati ríkisstjórnarinnar, að ekki væri um annað að ræða en að ráðast í skattahækkanir sem þessar, að gera þá fyrst einhverjar breytingar á því hvernig vísitala verðlags hefur áhrif á lánin, þ.e. að ráðast að því mikla vandamáli sem þessi verðtenging er.