137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[18:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leggja áherslu á að hér er um að ræða 2,7 milljarða kr. áætlaða tekjuöflun á þessu ári upp í annars áætlaðan 20 milljarða viðbótarhalla á ríkissjóði. Hér er sem sagt lagt af stað. Þetta dregur ekki langt en að sjálfsögðu munar umtalsvert um þetta ef þessar tekjur skila sér og þær þýða þá að við erum að ná í áttina að því að eyða þessum halla og/eða niðurskurðarþörf verður minni sem þessu nemur. Þannig held ég að menn verði að glíma við þetta. Það er að sjálfsögðu ljóst að þetta eitt og sér er aðeins lítið brot af þeim aðgerðum sem þarf að ráðast í. Þetta hefur þann ágalla í för með sér, sem ég dreg enga dul á, að þetta hefur verðlagsáhrif en ég sagði líka að vonandi er það þannig að í næstu aðgerðum verði um óveruleg áhrif af því tagi að ræða því þá verður borið niður á öðrum stöðum, sem sagt meira í sparnaði, niðurskurði, frestun framkvæmda eftir atvikum hvað það verður og tekjuöflun sem ekki hefur þá í för með sér nema í óverulegum mæli verðlagsáhrif.

Það er að sjálfsögðu auðvelt að reikna það út ef menn hafa handbærar tölur um heildarlánastabbann í verðtryggðum lánum hvaða áhrif þetta hefur. Þau eru að sjálfsögðu þó nokkur en dreifast náttúrlega yfir afborgunartíma langra verðtryggðra lána eins og kunnugt en að sjálfsögðu hækkar þetta höfuðstól þeirra eins og gengur þegar verðlag hækkar.