137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[19:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt andsvar og hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum sem hann lýsti og geri engar athugasemdir við það þó að einstaka þingmenn geti ekki stutt málið. Ég gerði einvörðungu athugasemdir við að stjórnmálaflokkur sem var í stjórn og flutti sams konar tillögu fyrir nokkrum mánuðum skuli leyfa sér að tala með þeim hætti sem hann hefur gert hér við umræðuna og kemur manni á óvart það ábyrgðarleysi í okkar erfiðu stöðu sem hann sýnir með því.

Ég held að það sé sannarlega stórt og mikið verkefni sem hv. þingmaður vísar til sem er skuldavandi heimilanna og það er fáum blöðum um það að fletta að þar verða menn að leita frekari leiða til þess að koma til móts við þann vanda sem fólk er í. Þar, eins og í ríkisfjármálunum yfir höfuð, eru hendur okkar bundnar af því að við höfum úr takmörkuðu fé að spila, þar verðum við að taka eitt skref í einu. Búið er að grípa til margvíslegra ráðstafana til þess að mæta þeim vanda og ef það er svo, sem ég hygg að sé, að það dugi ekki nema að hluta — þó að það kunni að duga langt í því að mæta vandanum — munum við þurfa að skoða frekari úrræði í þeim efnum.

Það er heldur engum blöðum um það að fletta og ég held að allir stjórnmálaflokkarnir hafi lýst því yfir að það er nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun á verðtryggingunni, m.a. vegna óheppilegs samspils eins og þessa. Án þess að ég ætli mér að taka endanlega afstöðu til málsins hér við 1. umr. verð ég þó að segja að ég held að sú fjárhagsstaða sem við stöndum frammi fyrir á þessu ári, þ.e. að við séum ekki bara að eyða 170 þúsund milljónum um efni fram heldur 20 þúsund milljónum meira og erum nú komin fram á mitt ár, geri það einfaldlega að verkum að við verðum að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Það er enginn sem er tilbúinn til þess að hækka yfirdráttarheimildina (Forseti hringir.) hjá okkur og það verður einfaldlega að grípa til erfiðra ákvarðana á þessu sumarþingi.