137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[19:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðeins örstutt. Ég held að það sé rétt að fram komi að við kynntum forustumönnum stjórnarandstöðunnar þetta mál í morgun eða í hádeginu. Ég skil alveg þau sjónarmið að menn hefðu gjarnan þegið að hafa lengri aðdraganda að því að vita af því að það væri í vændum. En ég held ég verði bara aftur að minna á og benda á að eðli þessara mála er slíkt að svona breytingar verður að gera hratt og ég held að fordæmin séu öll þannig að þau hafi yfirleitt verið afgreidd í gegn að kvöldi dags og reynt að stuðla að því að að morgni eða á næsta virkum degi væru breytingarnar um garð gengnar þannig að þetta gæti gengið snurðulaust fyrir sig.

Ég held að það hafi komið fram í mínu máli, alla vega er það í mínum talpunktum hver verðlagsáhrif þessa frumvarps eru. Það er að sjálfsögðu ekki nein ætlan að draga það neitt undan. Ég hef verið alveg hreinskilinn með það að það er að sjálfsögðu neikvætt að þetta hefur þessi verðlagsáhrif. En það verður ekki bæði sleppt og haldið og við bindum vonir við að í næstu aðgerðum viðameiri verði komist hjá verðlagsáhrifum, það verði þá borið þannig niður að þau verði óveruleg.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að hin víðtæka verðtrygging í okkar hagkerfi er mikið vandamál. Ég held að allir séu sammála um það. Við þurfum að komast út úr henni. Það á að vera forgangsverkefni að vinda ofan af henni og skapa aðstæður til þess að draga úr umfangi hennar. Það er bæði félagslegt og hagstjórnarlegt og efnahagslegt vandamál að sitja föst í þeim vítahring sem við erum í, Íslendingar því miður, á grundvelli hinnar víðtæku verðtryggingar. Og þess vegna verður það að vera í sjónmáli og reyndar held ég að það sé mikil pólitísk samstaða um það að stefna í þá átt.

Það eru eðlilega uppi miklar kröfur um frekari aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Þær eru skiljanlegar. En við skulum hafa í huga að yfirleitt beinast þær kröfur fyrst og fremst að opinberum aðilum og þá ekki síst ríkissjóði sem hér er þó verið að reyna að afla tekna. Það er gert til þess að minnka hallann. Það er gert til þess að minna þurfi að skera niður. Það er gert til þess að ríkissjóður geti sinnt sínu ómissandi hlutverki. Það er gert til þess t.d. að ríkissjóður ráði við byrðarnar af stórauknum útgjöldum vegna vaxandi atvinnuleysis (Gripið fram í.) sem er hluti af því sem veldur núna að óbreyttu og ef ekki væri á því tekið auknum halla á ríkissjóði.

Það eru því miður engar sársaukalausar og gallalausar leiðir færar í þeim efnum. (Gripið fram í: Þær eru misgóðar.) Það er alveg hárrétt, enda verður reynt að velja þær með hliðsjón af því. Ég vona að við getum rætt þessi mál á þeim grundvelli að stjórnvöld, og engan í þessum sal skortir viljann til þess að bæði reyna að útfæra allar aðgerðir þannig að þær séu sem sanngjarnastar og að gera það sem geta þjóðarbúsins ræður við í þeim efnum að koma til móts við fjölskyldur og atvinnulíf. Það er ekki viljann sem vantar heldur eru það í raun og veru aðstæðurnar sem setja okkur mjög þröngar skorður í þeim efnum.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmönnum fyrir umræðuna og endurtek tillögu mína um að málið gangi til efnahags- og skattanefndar.