137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég held þá áfram þar sem frá var horfið. Ég ræddi það hér áður en hlé gert var á ræðu minni að mikilvægt væri að horfa til kostanna í umræðunni um Evrópusambandið, að horfa til hinna dreifðu byggðarlaga og athuga kosti Evrópusambandsaðildar fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég tel mjög mikilvægt að skoða þá hluti með opnum huga. Þegar málefni Evrópusambandsins eru skoðuð, t.d. með landbúnað í huga, leggur Evrópusambandið áherslu á þrennt í þeim efnum:

Í fyrsta lagi leggur það mjög mikla áherslu á fjölbreytni tegunda, sem segir í okkar tilviki að landbúnaðarstefna Evrópusambandsins leggur mikla áherslu á að viðhalda þeim upprunategundum sem þrífast í hverju landi og mundi fyrir vikið að mínu mati styrkja mjög hefðbundinn landbúnað ef samningsmarkmið okkar nást með viðunandi hætti. Þar á ég við sauðfjárrækt, kvikfjárrækt og hrossarækt og má jafnvel nefna íslenska hundinn í þessu sambandi líka.

Í öðru lagi leggur Evrópusambandið mikla áherslu á matvælaöryggi fyrir viðkomandi land og gerir miklar kröfur til vara frá öðrum löndum ef matvælaöryggi bregst í viðkomandi landi.

Í þriðja lagi er það sýnt og sannað í þeim löndum sem hafa gengið til liðs við Evrópusambandið á síðustu árum og áratugum að hinar dreifðu byggðir hafa fengið töluverðan stuðning og í mörgum tilfellum hafa þær fengið mikinn stuðning frá Evrópusambandinu þegar kemur að samtvinnun hins hefðbundna landbúnaðar og menningartengdrar ferðaþjónustu. Það er að mínu viti mjög mikilvægt vegna þess að þarna eru vissulega gríðarleg sóknarfæri fyrir hinar dreifðu byggðir á Íslandi þegar kemur að þeim áhugaverða þætti sem menningartengd ferðaþjónusta er og viðhaldi á þeim stofnum sem við þekkjum til í sauðfjárrækt, hrossarækt og kvikfjárrækt.

Síðan er tvennt sem ekki má gleymast í þessari umræðu, sérstaklega þegar bændur ganga í sal, að lega landsins skiptir hér sköpum þegar kemur að landbúnaði í hinum dreifðu byggðum og Evrópusambandsumræðan er til tals. Fjarlægðaráhrifin eru gríðarlega mikil og ég tel að þegar kemur að samningsgerð við Evrópusambandið muni það hafa veruleg áhrif að Ísland er einfaldlega eyja og það mun mjög verða litið til þess þegar kemur að matvælaöryggi og smitsjúkdómum að raska ekki því öryggi sem Ísland hefur vegna landfræðilegrar legu sinnar. Það eru gríðarlega mikilvæg atriði fyrir íslenskan landbúnað en líklega mun vega þyngst á vogarskálunum, að mínu viti og margra annarra, þegar kemur að landbúnaði og Evrópusambandsumræðunni að lagðir verða miklir tollar á flutning matvæla þegar fram líða stundir og þarna koma enn til fjarlægðaráhrifin sem Ísland mun njóta góðs af.

Ég tel að horfa verði að til sóknarmöguleika hinna dreifðu byggða þegar kemur að umræðunni um Evrópusambandsaðild. Við getum ekki dvalið einvörðungu við varnarumræðuna í þessu efni. Við verðum að sækja fram, ekki síst á sviði landbúnaðar þegar kemur að því að setjast við samningaborðið og leita að sterkustu samningsniðurstöðu fyrir Íslendinga þegar og ef við göngum til samninga. Þar tala ég sérstaklega um að tvinna saman menningartengda ferðaþjónustu og landbúnað og auka fjölbreytni starfa til sveita en töluvert hefur verið skrifað um að Evrópusambandið hefur lagt gríðarlega mikla áherslu á að tryggja fjölbreytni starfa í hinum dreifðu byggðum landsins og sér þess stað. Ég get nefnt dæmi um lönd og staði eins og Grikkland, Finnland og Norður-Svíþjóð þar sem fjölbreytni starfa hefur aukist, að því er ég best veit. Þetta er einmitt það sem við þurfum mjög á að halda á Íslandi vegna þess að einhverra hluta vegna hefur Reykjavíkurvaldið séð til þess að atvinnustefna úti á landi er einsleit á meðan hún er fjölbreytt hér á suðvesturhorninu.

Þá komum við að því sem ég gat um í upphafi máls míns að Reykjavíkurvaldið hefur ekki reynst hinum dreifðu byggðum neitt sérstaklega vel. Einsleitni atvinnulífs hefur verið fest í sessi úti á landi um áratugaskeið af þeirri einföldu ástæðu, að því er mér sýnist, að stjórnvöld hér, Alþingi og framkvæmdarvald, hafa lítinn skilning á atvinnumálum úti á landi. Það er margsannað.

Þess vegna held ég að við eigum að horfa til þess varðandi mögulega aðildarumsókn að Evrópusambandinu að sækja fram með sóknarhug landsbyggðinni til heilla, skoða rækilega hvort það er ekki einmitt sú leið sem getur komið hinum dreifðu byggðum betur af stað en fullreynt Reykjavíkurvaldið. Á síðustu árum höfum við ekki einungis talað um atvinnuleysi úti á landi, við tölum miklu fremur um aðra hagstærð sem er íbúafjöldinn, flóttinn úr hinum dreifðu byggðum. Og þegar kemur að vanda heimilanna, sem hefur mikið verið ræddur í þessum þingsal á síðustu dögum, hefur einhverra hluta vegna ekki mjög mikið verið talað um vanda heimilanna úti í landi í því samhengi (Gripið fram í.) síðustu áratugi. Það hefur gert það að verkum að fólk situr uppi með glataðar eignir sem að markaðsvirði ættu að kosta 25 milljónir en einhverjar 5 milljónir fást fyrir. Það er sjaldnast talað um þann vanda þegar kemur að vanda heimilanna á Íslandi. Eru menn þá kannski einvörðungu að tala um vanda heimilanna á suðvesturhorninu? Það kann að vera.

Það sem ég er að reyna að segja er að við eigum að sækja fram af heilindum einmitt fyrir hinar dreifðu byggðir þegar kemur að mögulegri Evrópusambandsaðild. Við eigum að skoða mjög gaumgæfilega hvernig Evrópusambandið getur aukið lífsgæði fólks úti á landi. Þar hef ég nefnt margt og vil nefna eitt til viðbótar en það eru samgöngumál. Þess sér stað t.d. á Írlandi að Evrópusambandið hefur mjög komið því landi til hjálpar hvað stoðbrautagerð varðar. Ég held að landsbyggðin — tökum Vestfirði sem dæmi — hafi ekki sérstaklega mikið dálæti á Reykjavíkurvaldinu þegar kemur að samgöngumálum. Hvers vegna ekki að skoða þá með opnum huga það sem býðst í þeim málum í mögulegum aðildarviðræðum að Evrópusambandinu?

Þegar á allt er litið eigum við að skoða alla þá möguleika sem okkur bjóðast með opnum huga. Ég veit ekki hvað við fáum upp á borð í væntanlegri samningsgerð. Ég mun hins vegar sjá það þegar samningurinn kemur á borðið en að sjálfsögðu mun ég aldrei vita það frekar en aðrir Íslendingar ef við þorum ekki að leggja í þá samningsgerð sem væri landsmönnum (Forseti hringir.) hugsanlega til mikilla heilla og þá ekki síst fólki úti á landi.