137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bæði núna í seinni hálfleiknum og fyrri hálfleiknum í ágætri ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar kom margt fram sem er mjög í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem stjórnarandstaðan var að leggja fram í dag. Ég er alveg sammála honum um að það er ekki sama hvernig samningurinn lítur út. Ég er líka sammála honum um að það skiptir miklu máli að undirbúa rækilega það ferli sem við erum að fara í. Ég er líka sammála honum að um það þarf breiða sátt. Þá er ég sammála honum að um það sé sátt sem flestra og helst allra og líka að það þurfi sátt allra byggða í landinu eða sem flestra byggða.

Ég er hins vegar ósammála honum um það að hægt sé að setja málið þannig fram að aðild að Evrópusambandinu sé byggðaaðgerð því að við hljótum alltaf að þurfa að vega og meta hvað við erum að fá í staðinn og hverju við erum að tapa. Og ég velti því fyrir mér hvort það geti verið byggðaaðgerð ef við erum að stefna sjávarútvegi, sem er undirstöðuatvinnugrein á flestum stöðum á landsbyggðinni, og landbúnaði í einhverja hættu með slíkum samningum. Við erum greinilega sammála um að það þurfi að fara í ákveðið ferli. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður leggist á sveif með okkur að gera það ferli eins vandað og við erum að kynna í tillögu okkar. Mig langar hins vegar að fá skýringu á því hvað hann kallar Reykjavíkurvaldið.

Ég vil að lokum benda á ágæta grein í Bændablaðinu sem er með fyrirsögninni „Hverjir njóta landbúnaðarstyrkja ESB?“ Þetta eru að vísu tölur frá 2006. Meðal þess sem þar kemur fram — þarna er verið að vísa í skýrslu — er að fimm af sex stærstu styrkþegum landbúnaðarstyrkja í Evrópusambandinu eru ítölsk fyrirtæki, þrjú sykurfyrirtæki og tveir bankar og sjötta fyrirtækið er fjölþjóðlegur matvælarisi að vísu (Forseti hringir.) á Írlandi.