137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Efnahags- og skattanefnd hefur tekið til umfjöllunar 56. mál og meiri hluti nefndarinnar að lokinni umfjöllun leggur til við þingið að málið verði samþykkt með óverulegum breytingum, tekið er út ákvæði til bráðabirgða sem hefur í sjálfu sér ekki efnislega þýðingu heldur er aðeins til áréttingar og er í samræmi við þá afgreiðslu sem var á sambærilegu máli hér í desembermánuði sl. Nefndarálitið er að finna á þskj. 63 sem hefur verið dreift.

Nefndin fékk á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu. Sömuleiðis Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og kann nefndin þeim bestu þakkir fyrir að bregðast skjótt og vel við og gera grein fyrir sjónarmiðum samtaka sinna á fundi nefndarinnar. Það var sammerkt með Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu að lýsa andstöðu við málið og áhyggjum af því og ekki síst ýmsum óæskilegum hliðarafleiðingum þess, og þá einkum þeim áhrifum sem það hefði á verðtryggðar skuldir landsmanna og hugsanleg áhrif á stýrivaxtaákvarðanir á næstunni.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Magnús Orri Schram, Lilja Mósesdóttir og Álfheiður Ingadóttir.