137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[20:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að koma orðum að þessu en í stuttu máli er þetta þannig að persónufrádráttur er vísitölubundinn. Það segir í 67. gr. skattalaganna, með leyfi forseta:

„Persónuafsláttur manna, sem um ræðir […] skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að persónufrádráttargrunnurinn, sem er rétt rúmir 100 milljarðar, mun við þessa skattbreytingu hækka um 0,5%, sem eru 5,2 milljarðar, [Leiðr. ræðumanns: 500 milljónir. Sjá ræðu hans 28. maí kl. 23.15.] þannig að við þessa skattbreytingu eykst fjárlagahallinn um 1,5 milljarða. Ég skora á ykkur, stjórnarþingmenn, að greiða þessu ekki atkvæði. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Skora á háttvirta þingmenn.)

Á hv. þingmenn, fyrirgefið. Þið aukið fjárlagahallann með þessu. Ef þið ýtið á já núna á eftir berið þið ábyrgð á þeirri hækkun.